27.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (2322)

115. mál, almenn viðskiptalög

Framsögumaður (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Eg get ekki annað en sagt það, að mig furðaði á ummælum háttv. þm. Vestm. (J. M.) um þetta mál. Þegar verið var að semja víxillögin hér um árið, þá þótti þess ekki þörf að láta þau bíða fleiri þinga, þar sem þau voru alveg samhljóða lögum allra Norðurlanda, er rækilega höfðu verið þar undirbúin. Þessi lög, sem hér liggja fyrir, eru nú árangur af starfi nefndar, sem skipuð var hinum færustu mönnum, og sat mörg ár við starfið. Vér, sem í nefndinni erum, höfum mjög nákvæmlega athugað lögin grein fyrir grein, og komist að þeirri niðurstöðu, að gersamlegt óvit væri að hagga við efni þeirra, og að hvorki alþingi né stjórn hér væri fært um að bæta búning þeirra. Eg er þess handviss, að þótt þau yrðu tekin til tveggja ára meðferðar í stjórnarráði voru þá kæmu þau þaðan alveg óbreytt orði til orðs, eða þá breytt til spillis. Fásinnu teldi eg það að fara hér að lögleiða ákvæði, sem væru ósamhljóða þessum ákvæðum, er gilda fyrir þær þjóðir, er mest eiga viðskifti við oss. Skandinaviska nefndin hafði líka reynslu við að styðjast, því hún bygði sín lög á lögum annara verzlunarþjóða um þetta efni. Eg vona því, að háttv. þm. Vestm. (J. M.) taki það ekki illa upp fyrir mér, þótt eg verði að kalla það »skriffinsku« að þurfa endilega að láta málið ganga í gegnum stjórnarskrifstofur. Það mundi hafa þá einu afleiðing, að málið drægist, til tjóns fyrir viðskifti vor, og eg er þess fullviss að þm. vill það ekki.