05.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1885 í B-deild Alþingistíðinda. (2336)

117. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Framsögumaður (Jón Ólafsson):

— Herra forseti! Eg er þakklátur háttv. 1. þm. Húnv. (H. G.) fyrir undirtektir hans undir þetta mál; í aðalefninu og niðurlagsatriðinu erum við samdóma; það er að eins í smáatriðum, er okkur greinir á og eg vona, að takast megi að eyða þeim ágreiningi og ná samkomulagi. Eg skal játa það fyllilega, að nefndarálit meiri hlutans kom svo seint, að það var ekki tími til að semja sérstakt nefndarálit eftir það, en nefndin hefir gert sér alt far um að reyna að verða sammála og líta á samræmilegar skoðanir allra nefndarmanna, enda er það sem ágreinir ekki svo stórt í sjálfu sér.

Þessi tilhögun, aðskilnaður ríkis og kirkju, fríkirkjufyrirkomulagið, þekkjum við bezt frá löndum vorum vestan hafs, einkum í Bandaríkjunum, og það þori eg að fullyrða, að enginn maður þar mundi óska þess, að fríkirkjufyrirkomulagið væri látið falla og ríkiskirkja tekin upp aftur.

Háttv. 1. þm. Húnv. (H. G.) talaði um þá menn, sem héngju eins og dauðir limir á þjóðkirkjunni, væru átumein í því kirkjufélagi, sem þeir lifðu í. Þetta er alveg satt, en hann bætti því við, að slíkir menn gætu líka fundist í fríkirkjunni, en þetta á sér varla — eða að minsta kosti síður — stað, af því að ríkiskirkjunni er þannig hagað, að þar sitja þeir þangað til þeir segja sig úr henni, en til þess vantar þá alla framkvæmd. Þeir hanga þar fyrir »inertiunnar« kraft, ef eg mætti svo segja. Um það, hvernig réttast eigi að skilja, til hvers kirknaféð í öndverðu hafi verið gefið, get eg ekki verið öldungis samdóma háttv. þm. nefnilega að það sé gefið sérstaklega kristilegri kirkju. Í flestum gjafabréfum er kveðið svo að orði, að það sé »gefið guði«. Hvað þýða nú þessi orð? Eftir okkar skoðun, að eignirnar séu gefnar til eflingar þeirri æztu trúarhugsjón, sem ríkjandi er í þeim og þeim söfnuði. — 1. þm. Húnv. (H. G.) tók það réttilega fram, að sú fjárhagslega hlið væri aukaatriði og eg er honum alveg samdóma, en hitt vildi eg minnast á, að allir eða flestir andstæðingar aðskilnaðar ríkis og kirkju, leggja ekki meiri áherzlu á annað en fjárhagserfiðleikana. Sami þm. sagði líka réttilega, að stólgóssin hefðu ekki eingöngu verið til að launa biskupana, heldur líka til fræðslu kennilýðsins, en það leiðir af sjálfu fríkirkju-fyrirkomulaginu, að ríkið, þar sem það hefir hætt að styrkja nokkur sérstök trúarbragðafélög öðrum fremur, má ekki halda uppi skóla fyrir nein sérstök kirkjufélög. Nefndin hefir að eins lagt til, að almenn kensla fari fram í vísindalegri guðfræði, sem ekki heyrir til neins sérstaks trúarfélags. — Það hefir nefndin lagt til, að kent verði við háskóla Íslands, sem nú er í vændum. Þá talaði sami háttv. þm. um, að æskilegt væri, að mál þetta yrði betur undirbúið og almenn atkvæðagreiðsla látin fara fram. Tillaga vor er líka svo alment orðuð, að stjórnin hefir heimild til að beita þeirri aðferð, ef henni sýnist. Til þess að stjórnin hefði tíma til að láta þjóðina greiða atkvæði um málið, höfum við felt úr tillögunni: »næsta« (?: alþingi), svo stjórnin þarf ekki að leggja málið fyrir næsta þing. Henni er með því gefið langt um lengra svigrúm. Þar sem

1. þm. Húnv. (H. G.) hefir stungið upp á, að almenn atkvæðagreiðsla fari fram um málið, en við aðrir nefndarmenn lagt til að málið verði borið undir atkvæði á héraðs- og safnaðarfundum, þá er munurinn ekki ýkja mikill. Eg játa að sú leið, er hann fer fram á, er fult eins eðlileg og öllu frjálslegri. Þá verður málið líka borið undir utanþjóðkirkjumenn. Við höfum með tillögu okkar látið þjóðkirkjumenn fá sjálfdæmi um málið. En þetta þarf engum ágreiningi að valda. Það gleður mig, að einmitt þessi nefndarmaður, svo mikilsvirtur kennimaður þjóðkirkjunnar, getur orðið mér samdóma um, svo að við verðum samtaka um að greiða tillögunni atkvæði.