04.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (2359)

120. mál, húsmæðraskóli

Sigurður Sigurðsson:

Það er naumast unt að lengja mikið umræðurnar úr þessu. En mér finst þetta mál svo mikilsvert, að ástæða sé til að veita því athygli. Eg get ekki annað en látið undrun mína í ljósi yfir því, að kvenfrelsisfrömuðirnir hérna í deildinni ekki skuli láta til sín heyra um þessa tillögu, sem hér er til umræðu. Mér virðist, að þeir ættu að leggja eitthvað gott til þessa máls, svo framt að þeim er kvenfrelsismálið áhugamál og meira en varafleipur.

Nú á tímum er mikið talað um að útvega konum pólitísk réttindi, kosningarrétt og kjörgengi til alþingis eða jafnrétti við karlmenn. Hér skal nú eigi farið út í það, hve réttmætar þær kröfur eru í sjálfu sér, eða kvenþjóðinni nauðsynlegt að fá þeim framgengt. En hitt vil eg segja, að grundvöllurinn undir þeim kröfum hlýtur að vera sá, að kvenfólkið fái þann undirbúning eða mentun, sem þarf til þess að geta tekist á hendur þessi auknu réttindi, og samfara þeim hin venjulegu karlmannastörf. Hingað til hefir það verið talið aðalhlutverk konunnar að annast um heimilin og ala upp börnin, ef þær ekki hafa verið óbyrjur. En til þess að geta leyst þessi störf vel af hendi þarf kunnáttu eins og til hverra annara starfa í þjóðfélaginu. — Í gamla daga gerðu menn ekki hærri kröfur til mentunar konunum til sveita en það að þá voru bændadætur sendar á góð heimili, t. d. til prestsins eða hreppstjórans, til þess að læra þar heimilisstörf og matreiðslu. Og með allri virðingu fyrir þeim skólum, sem kvenfólk nú á tímum gengur á, þá er mér nær að halda, að þessi skóli hafi ekki verið síðri eða miklu mun lakari, jafnvel þvert á móti. En nú er þannig löguð skólamentun ekki lengur talin viðunandi. Nú er það orðið »móðins« að senda alla í skóla, konur og karla; en um hitt er sjaldnar spurt, hvernig þessir skólar eru eða hvað fólkið lærir í þeim eða hvort það lærir nokkuð eða ekki neitt. Hvað þessum skólum viðvíkur, húsmæðraskólunum, þá er eg á móti þeirri hugmynd, að stofna að eins 2 skóla fyrir alt landið. Þar á móti er eg hlyntur því að koma á fót fjórðungaskólum fyrir konur með stuttum námsskeiðum, og helzt þá, að þessir skólar væru í sambandi við búnaðarskólana. Væri gott að hafa þetta fyrir augum, þegar farið verður að framkvæma byggingarnar, sem í ráði er að reisa á búnaðarskólunum á Hvanneyri og Hólum. Það hefir komið til orða að stofna svona lagaða hússtjórnar- eða matreiðsluskóladeild við Eiðaskólann, hvað sem úr því verður. En hvað sem annars um þetta er að segja, þá munu allir á eitt sáttir um það, að nauðsynlegt sé að auka þekkingu kvenþjóðarinnar, einkum á húsmóðurstörfum og matreiðslu.

Í þessu sambandi er vert að minnast á það, sem dæmi upp á hversu illa kvenfólkið yfir höfuð er að sér í matreiðslu og fleiru þess háttar, að jafnvel stór nýmæli, eins og t. d. Hindhedesteorien, fer alveg fyrir ofan garð og neðan hjá því. Eg ætla ekki að fara að lýsa þessari mataræðishugmynd hér, því eg býst við að flestir háttv. þm. kannist við hana. Að eins skal eg benda á það, að samkvæmt kenningu Hindhede borðum við ofmikið af fæðuefnum úr dýraríkinu. Fæðan verður með því móti of auðug af eggjahvítuefnum. Í þess stað ætlast hann til, að meira sé neytt af fæðuefnum úr plönturíkinu. Telur hann það miklu hollara og margfalt ódýrara, en líkamanum til jafnmikillar gagnsemi eða jafnvel meira, ef á alt er litið.

Þessari hugmynd hefir helzt til lítill gaumur verið gefinn hér á landi, þrátt fyrir það þótt blöð og tímarit hafi minst á hana.