19.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (2541)

Lausnarbeiðni varaforseta efri deildar

Stefán Stefánsson:

Eg ætlaði ekki að tala í þessu máli, en niðurlagsorð háttv. þm. Ísf. knúðu mig til að standa upp. Hann sagði sem sé, að því viki nokkuð undarlega við, að »öll konungkjörna sveitin« skyldi rísa upp á móti þessu. Eg veit ekki hvaðan honum kemur sú vizka, einkum þar sem að eins tveir þeirra kgk. hafa látið í ljós skoðun sína á þessu máli. Eg hefi frá því fyrsta verið á þeirri skoðun, að rétt væri að veita forsetunum lausn. Mig furðaði á því, að hann skyldi segja þetta, og get ekki látið hjá líða að mótmæla því. En enn meir furðaði mig á því, að hann skyldi segja að konungkjörna liðið hefði verið heiðarlegir menn alt fram að þessu ári. Eg bjóst sízt við þessu af honum, þar sem hann er mér svo náskyldur sem allir vita. Það gefur grun um, að honum fari sem mörgum eldri bræðrum, er líta smáum augum á yngri bræður sina.

Þá hefir það og verið sagt, að atkvæðin verði hníf-jöfn ef lausnin verður ekki veitt. Eg veit heldur ekki hvaðan mönnum kemur þessi vizka. T. d. er eg ekki í neinum flokk, nema ef telja skyldi tveggja manna flokk, brot úr garnla þjóðræðisflokknum. Meirihl. hefir því að minsta kosti eitt atkvæði fram yfir minnihl. Eg er ekki bundinn neinum flokksböndum, og eg banna öllum að skipa mér í hvern flokk sem er. Hér ræð eg mínu atkv. algjörlega sjálfur; eg er það hamingjusamari en meirihlutamenn.

Eins og þegar hefir verið bent á, mega meirihlutamenn sjálfum sér um kenna þessa klípu, sem þeir eru komnir í. Hún er eingöngu að kenna fíkn þeirra í að skipa öll virðingarsæti sínum mönnum, svo að þeir knýjast nú til að grátbæna minnihl. um að fá að skipa einhvern þeirra í sætin. Enda dettur engum þeirra í hug að neita þessu. Eg býst ekki við að háttv. meirihl. verði ráðkænni hér eftir. Eg get jafnvel búist við að hann geri sig sekan í enn verri ráðstöfunum en hingað til, og baki landinu óþarfan kostnað. Eg hefi heyrt, að þeir muni ætla sér að fresta fundum deildarinnar, ef lausnarbeiðnin verður ekki veitt. Því vil eg afstýra, til að firra landið peningaaustri, og mun því greiða atkv. með því að forsetarnir fái lausn. En auðvitað er það algjörlega ástæðulaust að fresta fundunum. Meirihl. mun segja, að þeir séu skyldugir til að gæta þess, að þeir haldi meiri hlutanum. Þeir gera það eftir sem áður, þó lausnin verði ekki veitt. Þeir geta alveg eins búist við því, að eg greiði atkv. með þeim eins og hinum, nema í því eina máli, sem sérstaklega skilur okkur, en það á ekki að koma fyrir deildina, fyrr en forsetarnir eru komnir aftur.