20.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (2628)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Bjarni Jónsson:

Eg ætla að eins að minnast á fjárveitinguna til Gilsfjarðarmælingarinnar. Ed. hefir talið þessa fjárveiting óráðlega af því hversu fáir hafi hennar not. Eg gerði grein fyrir því um daginn, að bæði Reykhólasveit, Bæjarhreppur, Garpdalshreppur, Saurbæjarhreppur, og nokkuð af Skarðsströnd hefði gagn af því, ef góð innsigling fengist inn á Salthólmavík og Króksfjörð, sem hvorttveggja eru löggiltir verzlunarstaðir. Auk þessara sveita, sem eg hefi nefnt mundi að sjálfsögðu alt byggðarlagið frá Þorskafirði til Kollafjarðar hafa mikil not af því, ef góðar samgöngur fengjust við þessar hafnir. Innsiglingin þangað er bæði óhrein af skerjum og víða straumar, svo erfitt er eins og nú er, að fá skip til að sigla þangað inn, og þess vegna þarf að mæla leiðina. Kaupfélögin, sem þar verzta, eru nú í vandræðum með alla flutninga — og þó að þessir menn fengju 10 þús. kr. í eitt skifti, þá mundi landið græða við það. Þarna er ekki hægt að bæta samgöngur nema á sjó. Eg vona þess vegna, að þótt sláturfélag Ed. hafi slátrað þessu, að það mæti sömu velvild í þessari háttv. deild, eins og við fyrri umr. fjárlaganna.