19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (2641)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Framsögumaður (Björn Jónsson):

Ekki skal eg þræta um heitin. Ef ekki má kalla liðina í fjárlögunum annað en það, sem lögin heimila, þá kalla eg það of mikla skriffinsku. — Því viðvíkjandi, að færa til athugasemdirnar aftan við, finst mér það liggja svo í augum uppi, að óþarft sé að peksa um það, og get ekki séð, að það sé til annars, en að hafa eitthvað á móti.

Lækkunin á símatekjum síðara árið byggist á því, að þær urðu síðastliðið ár ekki nema 65 þús. kr., og þá þótti nefndinni heldur djarft að fylgja áætlun stjórnarinnar. Enda verða þær hinar sömu símatekjurnar, hvort sem áætlað er meira eða minna.

Um samsteyping liðanna er hið sama að segja og áður, en hégómi er það, að halda, að maður viti ekki um það eftir sem áður, hversu mikið hver liður gefur af sér.