30.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (2645)

53. mál, sóknargjöld

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Eg er þakklátur 2. þm. Húnv. (B. S.) og þm. Vestm. (J. M.) fyrir þá hugsun, sem virðist vaka fyrir þeim — en þegar kemur til þess að framkvæma hugsunina, er eg þeim ekki þakklátur. Þeir vilja að menn, sem ekki heyra til neinu kirkjufélagi, skuli fyrst borga alment skólasjóðsgjald jafnt öðrum og því næst eigi þeir að greiða það á ný, með öðrum orðum, þeir einu eigi að borga tvöfalt fræðslugjald, og þetta kalla þeir sannsýni. Þetta kalla eg að refsa mönnum að leggja tvöfalt gjald á þá á við aðra.

Þeir sem vilja líta mest á sem lægst gjöld, en kæra sig kollótta um, í hverri Keflavíkinni þeir róa, hvað kirkjufélagsskap snertir, geta stundum bjargað sér á sinn hátt. Eg skal nefna dæmi til þess.

Eins og allir vita, er eg sjálfur únítari og eg efast raunar ekki um að þeir séu býsna margir með vorri þjóð, þótt eg sé einn af fáum, sem hafa djörfung til þess að kannast við það. Fyrir fám árum komu til mín nokkrir menn hér í bæ og spurðu mig, hvort eg væri ekki fáanlegur til þess að mynda únítarasöfnuð hér. En það stóð þá þannig á, að íslenzkir únítarar vestan hafs höfðu ekki presta eða prestefni aflögu og því varð ekkert úr þessari ráðagerð. En eg spurði þá, hvort þeir væri allir únítarar og svöruðu þeir því játandi. Nú vil eg spyrja: Hvað er orðið af þessum mönnum? Jú, þeir hafa gengið í Fríkirkjusöfnuðinn hér, af því þeir voru óánægðir með prestsþjónustu þjóðkirkjunnar.

En samvizkusamir menn, sem ekki eru þjóðkirkjutrúar, og vilja ekki hafa trú sína í fíflskaparmálum, ef eg mætti svo segja — þeir geta ekki samvizku sinnar vegna sætt slíkum ráðum, þar sem þeir eru fámennir. Þeir vilja ekki vera hræsnarar. En eigum vér að setja út verðlaun fyrir hræsni og yfirdrepskap?