24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (2660)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Framsögumaður (Skúli Thoroddsen):

Að því er viðvíkur till. 2. þm. Rvk. (M. B.) um styrkinn til verzlunarskólans, hefir fjárlaganefndin enga ástæðu séð til að hækka styrk þennan eins gífurlega og stjórnarfrumvarpið fer fram á, nefnilega um 2000 kr. á ári. — Lítur fjárlaganefndin svo á, sem kaupmannastétt Reykjavíkur, sem gengist hefir fyrir því, að koma skólanum á fót, sé eigi um megn, að styrkja skólann meira en gert hefir verið, og álítur, að landssjóðstillagið, 3000 kr. árlega, sé nægilegt.

Hinn háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) hefir farið fram á lán til trésmíðaverksmiðju á Seyðisfirði. Fjárlaganefndin sér sér ekki fært að mæla með slíkri lánveitingu. — Trésmíðaverksmiðjur eru nú þegar komnar á fót á fimm stöðum hér á landi. Verksmiðja Jóh. Reykdals í Hafnarfirði var fyrsta trésmíðaverksmiðjan, sem sett var á stofn hér á landi, og því þótti þá ástæða til að hjálpa henni, þar sem um nýtt iðnaðarfyrirtæki var að ræða, en nú, er slíkar verksmiðjur eru orðnar svo margar hér á landi, sem fyr segir, virðist ástæðulaust, að landssjóður sé að styrkja þær, og efla þannig samkepni með því að styrkja sumar en ekki allar.

Þá ætla eg að snúa mér að Eiðaskólanum; þingið ákvað árið 1905 að hafa að eins tvo bændaskóla á landinu, en styrkja verklegar búnaðaræfingar á Eiðum og í Ólafsdal. Hvernig er er nú þessu tekið? Í stað þess að taka þessu, sem komið var, og sætta sig við tilhögun alþingis, og reyna þá heldur, að fá henni síðar breytt, gerast Múlsýslungar, eða réttara sagt sýslunefndir þeirra, ólöghlýðnar og segja: »Þetta þolum vér eigi!« Þeir byggja dýrt hús á Eiðum, sem kostar 40,000, kr. en lenda í standandi vandræðum, sem fyrirsjáanlegt var, og segja síðan þinginu að borga hálfan byggingarkostnaðinn. Ráðandi menn í Múlasýslum hafa því reist sýslubúum sínum hurðarás um öxl og gengið í berhögg við vilja þingsins, þar sem þeir eigi gátu bygt skólahúsið af eigin efnum, og þar sem þeir hafa beitt ráðríki, þá er þeim það í alla staði maklegt, að þeir taki sjálfir afleiðingar breytni sinnar.

Hvað mundi verða sagt af þingmanna hálfu, ef lýðháskólinn á Hvítárbakka að alþingi fornspurðu bygði sér skólahús fyrir 40,000 kr., eða þá Flensborgarskólinn, og heimtaði síðan, að alþingi legði fram byggingarkostnaðinn eða megnið af honum?

Fjárlaganefndin hefir nú lagt það til, að skólanum verði hjálpað á þann hátt, að hækka ársstyrkinn til hans úr 1500 kr. í 2500 kr., og að veita honum að auki 1000 kr. árlega til húsmæðrafræðslu. Byggingarstyrk sér nefndin sér ekki fært að leggja til, að veittur verði, og það því síður, sem hún ræður til þess, að neitað verði um styrk til byggingar á Hólum og Hvanneyri, og er þó þörfin í því efni rík, ekki sízt hvað Hvanneyri snertir. Verða skólar þessir að reyna að bjargast til næsta þings.

Hinn háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) hældist um yfir því, að Austfirðingar væru þegar búnir að byggja sitt skólahús á undan bændaskólunum. Þetta hefði nú verið lofsvert, ef þeir hefðu sjálfir getað borgað byggingarkostnaðinn, og ekki þurft að flýja á náðir þingsins; en fyrirtækið verður síður hrósvert, þegar í það var ráðist að alþingi fornspurðu og landinu þó ætlað að borga.

Satt er það að vísu, að Múlasýslur borga allmikið í landssjóð; en hvað er það á móts við það, er Ísfirðingar greiða í landssjóð, og verða þó mjög afskiftir, er til fjárveitinga kemur? En á þetta ber alls eigi að líta, heldur á hitt, hvar þörfin er brýnust í hvert skifti, og landinu í heild sinni heillavænlegast.

Eg skal og benda á, að þó að þingið sinni eigi málaleitun Múlsýslunga að þessu sinni, þá er enginn vafi á því, að þingið verður síðar að hlaupa hér undir bagga, svo að einstökum gjaldendum til sýslusjóða í Múlasýslum verði eigi íþyngt óbærilega. En að þeir verði að bíða til næsta þings, og hafa einhver ráð til þess tíma, það er eigi að eins eðlilegt, eins og fjárhagnum nú er varið, heldur ætti það og að verða sjálfsögð afleiðing af ráðríkistiltektum sýslunefndanna.

Að nauðsyn hafi borið til þessara tiltekta, sakir þess, hve örðugt sé fyrir Austfirðinga að sækja bændaskólann á Hólum, hygg eg að sé lítilfjörleg afsökun, eins og samgöngum umhverfis landið nú er háttað.

Þá má geta þess viðvíkjandi styrknum til bóndans í Tvískerjum, að nefndin álítur 200 kr. árlega nægilegan styrk, en gerir styrkupphæðina þó ekki að ágreiningsefni.

Að því er snertir þá tillögu nefndarinnar, að þeir ? hlutar sektarfjár og andvirði upptæks afla og veiðarfæra botnverpinga, fyrir ólöglegar fiskiveiðar, er áður runnu í ríkissjóð renni hér eftir í landssjóð, skal eg geta þess, að þar sem Danir vildu fallast á það í millilandanefndinni, að fiskiveiðaréttur þeirra í landhelgi hér við land, sé talin borgun fyrir strandvarnirnar, gizka eg á, að þessi tillaga nefndarinnar mæti ekki mótspyrnu af Dana hálfu, ef þingið samþykkir hana.

Að því er tillögur um lánveitingar snertir, telst svo til, að upphæðin öll mundi nema hér um bil 403,500 kr., kr, auk þess er landssjóður tæki að sér ábyrgð á láninu til berklaveikrahælisins. Eg hygg nú, að öllum muni ljóst, að ef allar þessar lánveitingar yrðu samþyktar, gæti landssjóður sint mjög fáum þeirra, og sé því rétt að fara varlega í þeim efnum. — Að því er snertir lánveitingu til sýslumannsins í Rangárvallasýslu, sér fjárlaganefndin sér eigi fært, að mæla með henni, þar sem það kynni að draga þann dilk á eftir sér, að aðrir sýslumenn færu hins sama á leit. — Láni til vatnsveitu í Hafnarfirði er nefndin og móthverf, telur kaupstaðnum það eigi ofætlun, að hafa önnur útispjót; sama er og um lán til slátrunarhúss Gunnars Einarssonar. Þó er eg fyrir mitt leyti meðmæltur láninu til þess, en meirihluti nefndarinnar var því mótfallinn. Hann setur ágætt veð, húsið sjálft með öllum útbúnaði.