24.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1487 í B-deild Alþingistíðinda. (2674)

96. mál, þjóðmenjasafn Íslands

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Ræða hins háttv. þm. Mýram. (J. S.) hefði verið góð, ef hún hefði verið haldin í hreppsnefnd upp í Hvítársíðu. Það er gott að berja barlómsbumbuna, þar sem það getur komið að haldi, en í þessu máli kemur það ekki vel við, því að það er lagaskylda að fornmenjavörður ferðist um landið til rannsóknar fornmenjum, og það getur hann ekki, eins og nú stendur á, nema því að eins, að safnið standi lokað á meðan, og það getur þó ekki verið tilgangur hv. þm. Mýram. (J. S.) að það eigi að búa til söfn, til þess að halda þeim lokuðum fyrir öllum landslýð, sem er eigandi þeirra. Söfnin innihalda margt og mikið, sem er lærdómsríkt á marga vegu, en það getur ekki orðið til gagns, nema því að eins að alþýða manna fái að sjá það og kynnast söfnunum. Og eg vil enn að nýju biðja háttv. þm. að athuga það vel, — hann virðist ekki hafa tekið eftir því, þegar eg sagði það áðan — að fornmenjavörður verður að loka safninu, ef hann fer burt úr bænum. Komið gæti það vitanlega til mála, hvort ekki væri æskilegt, ef hægt væri, að leggja undir þetta safn náttúrugripasafnið, en því er ómögulegt að koma við, fyr en landið hefir efni á því að byggja yfir þau bæði sérstaka byggingu.

Forngripasafnið inniheldur ýmsar dýrmætar minningar lands vors og þjóðar um 300 ára tímabil og þess utan töluvert frá eldztu tímum landsins. Það er réttmætt, sem hinn háttv þm. tók fram, að safna verður með viti, en betur mundu honum hent ljósaverk í fásinni uppi í Borgarfirði, en að setja reglur fyrir slíkum hlutum. Háttv. þm. sagði, að óþarfi væri að hafa marga hluti sömu tegundar á slíkum söfnum. En eg skal fræða hann á því, að það er jafnan siður safna hvarvetna, að láta í burtu smám saman alt það, er þeim fénast og þau þarfnast ekki, til annara safna eða einstakra manna fyrir hluti, er þau eiga ekki, eða þá fyrir fult andvirði. Það getur verið álitamál, hversu mikið ber að veita fornmenjaverði í laun. Eg hefi stungið upp á 1000 kr. og álít það ekki of mikið. Það hefir verið gerð grein fyrir því, hversu alt er nú fullum þriðjungi dýrara en áður var, þegar laun embættisins voru ákveðin.

Við megum ekki láta þá ómensku um okkur spyrjast, að við lokum fyrir alþjóð slíkum fræðslubrunnum sem söfnin eru. Við verðum að hafa þá svo aðgengilega fyrir þjóðina sem fremst er fært. Það er gott að spara, þar sem það er hægt að vansalausu, en hér er ekki hægt að spara það, sem nauðsynin hrópar hástöfum á.