29.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

27. mál, kosningarréttur og kjörgengi

Lárus H. Bjarnason:

Í þessu frumvarpi er stofnað til þeirra nýmæla, að hjú fái bæði kosningarrétt og kjörgengi til sveitastjórna. Engin ástæða er til að meina hjúum kosningarrétt. Þau eru skyld að greiða útsvar, og því er sjálfsagt, að þau hafi einhver áhrif á það, hvernig fénu er varið.

Hitt er annað mál, hvort rétt sé að veita þeim kjörgengi að svo stöddu; að minsta kosti yrði þá að áskilja samþykki þeirra til að þau yrðu kosin, eins og háttv. 4. kgk. tók fram. Og hvað sem öðru líður, þá er engin ástæða til að láta hjú í Reykjavík og Hafnarfirði búa við lakari kosti, eins og mér skildist sami háttv. þm. gjöra ráð fyrir; það er sjálfsagt að annað hvort hafi öll hjú á landinu þenna rétt eða engin.