29.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

27. mál, kosningarréttur og kjörgengi

Steingrímur Jónsson:

það er misskilningur hjá háttv. 5. kgk. þm., að eg vilji gera hjúum í Reykjavík og Hafnarfirði hærra undir höfði en annarstaðar. Eg álít sjálfsagt, að gera aðra staði á landinu jafn réttháa sem Reykjavík og Hafnarfjörð. En eg álít ekki ástæðu til að fara lengra, en farið var í lögunum 1907 fyrir þessa tvo bæi. Í þeim lögum var hjúum ekki veittur kosningarréttur né kjörgengi, en hér er farið fram á, að þeim sé veitt hvorttveggja. Eg gerði grein fyrir því á síðasta þingi, að eg áliti ekki vel við eigandi, að vistarband og kosningarréttur hjúa í sveitamálum færi saman. Vistarbandið útilokar að minni hyggju rétt þeirra til kosninga. Húsbóndi getur eftir hjúalögunum neitað hjúum um að neyta kosningarréttarins. Þess vegna er betra að afnema fyrst vistarbandið. Annars neita eg því alls ekki, að hjú hafi rétt til að fá kosningarrétt, en eg álít ekki heppilegt, að veita þeim hann eins og nú stendur.

Svo benti eg á það, að nauðsynlegt væri, að hjúum væri ekki gjört að skyldu að taka við kosningu. Annars verða lögin bein mótsögn við hjúalögin; því samkvæmt þeim getur húsbóndi neitað hjúum að taka kosningu. Þó það kæmi sjaldan fyrir, væri það samt ekki heppilegt. En það getur líka komið oft fyrir. Auk þess má búast við, að þessi stétt, ef hún á annað borð á skilið að fá þennan rétt og veruleg þörf er fyrir hann, fari að halda fram mönnum úr sínum flokki til kosninga; og vinnufólk og lausafólk mundi vafalaust fylgjast að málum. Hvort þetta hefði heppileg áhrif á stjórn sveitamála, læt eg ósagt; það er tvent til í því efni.