04.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Framsögumaður (Sig. Stefánsson):

Eg ætlaði ekki að standa upp framar, og er það aðeins vegna fyrirspurnar háttv. 3. kgk. þm. að eg geri það, enda þótt eg sé ekki við því búinn að svara henni. Eg býst við að því sé eins varið með þetta tilboð, og tilboð þau, er komið hafa frá Sameinaða félaginu til fyrri þinga, að það standi þangað til ráðherra eftir þinglok kemur til Kaupmannahafnar og getur samið nánar við félagið. Það er alveg rétt hjá háttv. 3. kgk. þm., að tilboðið gæti glatast, ef stjórnin drægi það alt of lengi að gefa ákveðið svar, en að svo stöddu held eg að engin hætta sé á því, að tilboðið missist, ef stjórnin fer hyggilega að ráði sinu, því að auðvitað er að síðustu alt undir því komið. Mér þótti háttv. 4. kgk. þm. ætla vitaeftirlitsmanninum nokkuð mikið starf: mér skildist helst á honum, að hann ætlaðist til að eftirlitsmaðurinn liti daglega eftir því, að það logaði á öllum landsins vitum, en það er auðvitað ekki meiningin og getur ekki verið meiningin, því að það væri engum menskum manni kleift. Á öllu þess háttar verða vitaverðirnir auðvitað að bera ábyrgð; það er að eins ef eitthvað verulegt verður að vita, að eftirlitsmaðurinn verður að takast sérstaka ferð á hendur, auk venjulegra eftirlitsferða, og þá fær hann ferðakostnaðinn borgaðan eftir reikningi. Annars býst eg við, að eftirlitsmaður þessi sitji lengst af í Reykjavík, hér eftir eins og hingað til, og hirði þar peningana í næði, hvort sem það nú verða 700 eða 1000 kr. Og þó hann fái ekki nema 700 kr., þá hefir hann þó fengið launahækkun, sem ef til vill líka er sanngjarnt sökum þess, hve mjög vitum hefir fjölgað upp á síðkastið.