15.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

43. mál, aðgreining holdsveikra

Sigurður Hjörleifsson:

Eg skal taka það strax fram, að frumv. þetta, sem eg flyt, er ekki samið af mér, heldur af landlækni G. Björnssyni og holdsveikralækni Sæm. Bjarnhéðinssyni. Þeir hafa mælst til þess við mig, að eg tæki frumv. til flutnings. Mér er ljúft að verða við tilmælum þeirra, því að aðalatriði frumv. þessa er í byrjuninni frá mér sjálfum. Fyrir 4 árum ritaði eg um það í blaðinu »Norðurland«, að æskilegt væri að breyta þessum lögum.

Holdsveikin hér á landi hefir verið allmikið vandræðamál um langan tíma, alt þangað til holdsveikraspítalinn komst upp. En síðan hefir orðið talsverð breyting á þessu, bæði vegna stofnunar holdsveikraspítalans og laga um aðgreining holdsveikra frá öðrum.

Um það leyti, sem spítalinn var stofnaður, voru um 220 holdsveikra manna í landinu. Þessar tölur eru ekki með öllu áreiðanlegar, en sjúklingar munu þó hafa verið nálægt 200. Síðan er mikil breyting á orðin, nú munu þeir vera um 100. 1905 voru þeir 113 og 1906 107. Opinberar skýrslur eru að vísu ekki til yngri, en eftir því sem holdsveikralæknirinn hyggur, munu sjúklingar vera nálægt 100. Sá galli fylgir spítalanum, að hann er dýr, hann kostar um 30,000 kr. á ári. Því er það æskilegast, að þessari veiki yrði útrýmt sem fyrst. Við það sparaðist fé, og þá mætti nota húsið til annara landsnauðsynja, og þess vegna er það þýðingarmikið mál, að holdsveikinni verði rutt úr landi sem allra fyrst.

Svo er ástatt, að spítalinn hefir á síðustu árum ekki verið notaður að fullu. Þar eru 60 rúm, en sjúklingar ekki nema 50. En þessi fækkun á sjúklingum gerir ekki spítalann ódýrri. Ástæðan til þessarar fækkunar er sú, — hin sama og eg mintist á fyrir 4 árum —, að samkvæmt lögum 4. febr. 1898, 7. gr., skulu að eins holdsveikir menn, er njóta sveitarstyrks, fluttir skylduflutningi á spítalann, en aðrir, sem geta séð fyrir sér sjálfir, þótt holdsveikir séu, skirrast við að fara á spítalann. Að vísu er svo fyrir mælt í 8. gr. sömu laga, að amtmaður getur í einstökum tilfellum, eftir tillögum hlutaðeigandi sveitar- eða bæjarstjórnar og læknis, lagt fyrir, að einnig aðrir menn skuli fluttir skyldu flutningi á holdsveikisspítala. Þessi ákvæði eru bæði óheppileg, og vandræða erfiðleikar á að fylgja þeim. Ákvæðin eru líka óeðlileg og ekki í samræmi við það sem gildir um aðra sjúkdóma, því að það er það vanalega, að læknir hefir úrskurðarvald um það, hvort einangra skuli sjúkling, sem sýktur er sóttnæmri veiki, eða ekki. Það er látið við hans úrskurð standa, en sveitar- eða bæjarstjórnir ekki kvaddar til ráða.

Það sem hér er farið fram á, er að nema þetta ákvæði úr lögum, en taka það í lög, að þeir sem eru hættulega holdsveikir, skuli leggjast inn á spítala. Auðvitað er hér um nokkra skerðing á persónulegu frelsi að ræða, og það á fólki sem líður mikið, en bæði er um að ræða mjög þýðingarmikið fjármál fyrir landið, og svo er og hitt nokkuð ómannúðlegt, að skipa fátæklingunum einum að fara á spítala, en sleppa þeim stöndugri, þrátt fyrir skýlausa yfirlýsing héraðslæknis um að þeir séu hættulegir fyrir þá, sem umgangast þá. Því að gæta verður að því, að skyldur eru ekki að eins gagnvart þeim veiku, heldur einnig gagnvart fólki, sem býr kringum þá. Menn eru að smitast enn í dag. Hér verður að taka í taumana, og því tekur þetta frumv. skýrt fram þessi atriði.

Það leiðir af sjálfu sér, að með skylduflutningi á spítalann fylgir það, að landsjóður verður að bera þann kostnað, sem af flutningnum leiðir, og þar með fylgja nokkrar smábreytingar, sem gera verður á gildandi lögum, og teknar eru upp í þetta frumv.

Eg leyfi mér þá að fela háttv. deild málið, og vona að hún taki því vel og skipi 3 manna nefnd í það að umræðum loknum.