14.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

46. mál, verslunarbækur

Framsögum. (Ágúst Flygenring); Eins og kunnugt er, er frv. þetta fram komið af því að slík ákvæði eru ekki til í lögum vorum áður. Það fer fram á það, að kaupmönnum sé gert að skyldu að halda verzlunarbækur, og gert ráð fyrir, hverjar bækur þeir eigi að halda. Frá almennu sjónarmiði er full þörf á slíkum lögum, þar sem mestöll viðskifti hér á landi fara gegn um greipar verzlananna, og meginhluti viðskiftanna eru enn þá bókfærð, og á það vafalaust langt í land, að svo langt komist, að hönd selji hendi. Atvinnuvegir vorir eru flestir reknir á vissum tímum árs, og af því leiðir, að þeir, sem atvinnu reka, verða að leita lána hjá verzlunum. Verzlunarbækur eru trygging bæði fyrir kaupanda og seljanda. Nefndin hefir því fallist á, að frv. sé þarflegt. Þó nýlega hafi verið samþykt hér í deildinni í þingsályktunartillögu áskorun til stjórnarinnar um að taka verzlunariðggjöf landsins til athugunar, þá áleit nefndin þó ekki rétt að fresta þessu frumvarpi, þar sem þörfin fyrir það er mikil, og það getur ekki að neinu leyti komið í bága við uppástungur um aðrar umbætur, er fram kunna að koma frá stjórninni. Frá nefndinni, er kosin var í Nd. til að íhuga verzlunarmál, hefir ekkert orð komið um þetta frumvarp; hún hefir víst ekki álitið þess þörf, og hefir ekkert haft við það að athuga.

Eg skal lýsa stuttlega breyt.tillögum nefndarinnar. Aðalbreyt.til. er við 2. gr. Frumvarpsgreinin gerir ráð fyrir, að frumbókin, sem alment er kölluð »kladdi«, sé gegnumdregin og löggilt Þessu ákvæði vill nefndin sleppa. Við sjáum ekki að nein trygging sé í því falin fyrir því, að viðskifti manna séu rétt skráð, þó frumbókin sé gegnumdregin og löggilt, ef ekki er neitt annað til skilið til að tryggja að rétt sé bókað. Við álítum þvert á móti að löggilding gæti orðið til skaða, því að sá kaupmaður, sem vildi nota sér það, gæti misbrúkað þetta sönnunargagn til að færa ranga reikninga. Löggildingin út af fyrir sig er gagnslaus, ef ekki er neitt annað til skilið, sem getur gefið upplýsingar, t. d. að bókfæra skuli nafn þess, sem leggur vöruna inn og tekur hana út, og fyrir hvers reikning það er gert. Þetta leggur nefndin mikla áherzlu á, og leggur til, að það að tekið upp sem ákvæði í lögin. Það er óhætt að fullyrða, að meir en helmingar þeirra, sem taka út og leggja inn vörur, gera það fyrir reikning annara, en ekki sinn eigin reikning. — Auk þess sem við viljum, að bóka skuli, hver tekur út og leggur inn o. s. frv., viljum við að það ákvæði sé sett í lögin, að skiftavinum skuli látið í té samrit af viðskiftunum í hvert sinn sem þau fara fram bóklega. Hagkvæmast væri, að hafa frumbókina þannig útbúna, að öll blöðin séu tvöföld og »perfóreruð«; þegar skrifað er á fremra blaðið, kemur það sama fram á aftara helmingnum og verður hann eftir, þegar fremri helmingurinn er rifinn frá. Sömuleiðis má nota þá aðferð, að leggja laust blað ofan á blaðsíðuna í bókinni; er það mjög algengt við verzlun í »pakkhúsum«. Með tímanum finna kaupmenn vafalaust sjálfir hagkvæmasta ráðið til að haga þessu sem bezt.

Við 2. gr. hefir nefndin og gert þá breytingartillögu, að útlendu orðin innan sviganna falli burt. Henni virtist það með öllu óþarft að halda útlendu orðunum, þar sem íslenzku orðin eru nægilega skýr og öllum skiljanleg.

Breytingartillagan við 5. gr., að í stað »löggiltar« komi »lögskipaðar«, er bein afleiðing af því að nefndin leggur til, að frumbækurnar séu ekki löggiltar.

Breytingartillagan við 7. gr., að á eftir »fangelsi« komi »við vatn og brauð«, er gerð eftir bendingu lögfræðings þess, er sæti átti í nefndinni, og hygg eg að hún sé fyllilega á rökum bygð.

Breytingartillagan við 8. gr. miðar að því, að gera tíma þann, er frumbókin hefir sönnunargildi, jafnlangan, hve nær á árinu sem skuldin er stofnuð. Hitt, að láta tímann vera mismunandi langan, eftir því hvort skuldin er stofnuð fyrir eða eftir 1. júlí, telur nefndin ekki rétt, enda mun það bygt á þeirri röngu hugmynd, að viðskiftamenn fái reikning að eins einu sinni á ári, 31. desember. En bæði er það, að sú venja er nú óðum að leggjast niður, að gera að eins upp um áramót, og auk þess vildi nefndin styðja að því með breytingartillögu sinni, að sá siður — eða réttara sagt ósiður — legðist af með öllu. Það er í alla staði mjög heppilegt, að viðskiftamenn á öllum tímum ársins viti sem bezt, hvernig reikningur þeirra stendur. Eg legg því talsverða áherzlu á, að tillaga þessi verði samþykt. Síðustu málsgrein 8. gr. um ósamkvæmar innfærslur, telur nefndin óþarfa, því að hún álítur, að löggildingin út af fyrir sig hafi ekki sönnunargildi. — Hinni nýju 13. gr. um brottfall ákvæða í tilskipun 13. júní 1787, er bætt við að ráði lögfræðingsins í nefndinni, er taldi það réttara, enda þótt þess væri naumast þörf, því að tíminn hefir í raun og veru afnumið þessi ákvæði.

Skal eg svo ekki fara frekari orðum um málið, en vona að bæði frumvarpinu og breytingartillögum nefndarinnar verði vel tekið af hinni háttv. deild.