02.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

47. mál, löggilding verslunarstaða

Framsögum. (Gunnar Ólafsson):

Einn nefndarmanna hefir komið fram með breytingartillögur, án þess að bera sig saman við samnefndarmenn sína. Það er háttv. 3. kgk. þm., sem það hefir gert. — Um fyrstu breytingartillöguna þarf eg ekki að fjölyrða; þar var auðsjáanlega að eins um ritvillu í frv. að ræða. — 2. breytingartillagan, um að setja >á« í stað »í«, þykir mér litlu skifta, en álíta verð eg það vafasamt, hvort það er fegurra mál eða málfræðislega réttara, að orða það á þann hátt, er hinn háttv. 3. kgk. þm. óskar.

4. breytingartillaga háttv. 3. kgk. þm. fer fram á, að löggilda Viðey í Kjósarsýslu, og skal eg ekki vera henni mótfallinn; en þar sem Nd. þegar hefir felt frv. þar að lútandi, þá get eg ekki fylgt henni, ef öllu frv. er með því hættu stofnað. Eg bjóst heldur ekki við, að háttv. 3. kgk þm. myndi verða þess svo mjög fýsandi, að fjölga verzlunarstöðum, því að þegar tilrætt var um löggildingu Ósanna hér á dögunum, þá talaði hann hreinasta óráð. Eg get ekki kallað það annað en óráðshjal, að vera að tala um að löggilda hafnir fyrir loftför, eins og háttv. 3. kgk. þm. gerði þá. Eg skal engar getur að því leiða, hvað honum gengur til, með því að leggja svo mikið kapp á löggilding Viðeyjar; það kemur líka síðar í ljós. En eins og eg sagði áður, mun eg greiða atkv. með þeirri löggildingu, á meðan hún ekki stofnar öllu frv. í hættu.