30.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

50. mál, kirknafé

Jens Pálsson:

Eg vildi að eins bæta því við, að mér virðist að hér sé verið að skapa ískyggilegt fordæmi. Má vel vera, að enn hafi enginn söfnuður hegðað sér eins og Möðruvallasóknarmenn, en það eru enn eftir 2 landsjóðskirkjur í Vestur-Skaftafellssýslu, sem landsjóður ekki hefir afhent söfnuðunum, og má búast við, að þær á sínum tíma setji einhver svipuð skilyrði, sem þessi söfnuður hefir gert, að fúlga sú, er kirkjunum kann að fylgja frá landsjóðs hendi, sé undanþegin ákvæðum laganna um hinn almenna kirkjusjóð. Sama má segja um aðrar kirkjur, er sjóði eiga, og söfnuðum gefst kostur á að taka við. Söfnuðirnir gætu sett sviplík skilyrði. Yrði slíkum beiðnum sint, gætu þær orsakað óreglu og glundroða, er hnekti tilgangi og þrifum hins almenna kirkjusjóðs, og væri þá öllum hrörlegum kirkjum, sem endurbyggingar eða endurbóta þurfa við, gert rangt til; þær færu á mis við hlunnindi, sem lögin um hinn almenna kirkjusjóð ætla þeim. Eg trúi því ekki fyr en eg sé skjöl og skilríki fyrir því, að stjórnin hafi gengið að þessu lögum gagnstæða skilyrði. Eg get vel trúað því, að söfnuðurinn hafi sett þetta skilyrði í fyrstu, en hafi hann ekki fengið formlegt samþykki stjórnarinnar, að því er það snertir, og þó tekið við kirkjunni, ber að líta svo á, sem hann hafi fallið frá skilyrðinu. Eg get gert flutningsmanni það til þægðar, að greiða atkvæði með frumv. til 2. umr., en út úr deildinni vit eg með engu móti hleypa því, nema á því séu gerðar þær breytingar, er girða fyrir það, að slíkt geti átt sér stað framvegis. Má og leita álits biskups um málið áður en frumv. verður til 2. umr. Skal eg svo ekki fara um málið frekari orðum að sinni.