30.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

50. mál, kirknafé

Kristinn Daníelsson:

Eg hlýt að vera því algjört mótfallinn, að kirknafé sé dregið undan tilgangi laganna um stofnun almenns kirkjusjóðs, ekki sízt á þessum tímum. — Hvað fordæminu viðvíkur, þá gæti það náð til allra kirkna; hver einasta kirkja landsins, sem nokkuð á í sjóði, gæti farið að nurla með hann í sparisjóð, o. s. frv. Það kann að standa sérstaklega á hér, að því er það snertir, að hér liggi gjörður samningur fyrir hendi. Sé svo, þá er slíkt algjörlega á landstjórnarinnar ábyrgð; og verður hún þá að taka sjálf afleiðingunum. En í heild sinni verð eg að vera því meðmæltur, að frumv. þetta sé felt. því sé þetta látið ganga í gegn, þá stendur leiðin opin fleirum svipuðum tilfellum.