04.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

51. mál, stofnun landsbanka

Gunnar Ólafsson:

Eg get ekki tekið undir með háttv. 5. kgk. þm. þar sem hann sagði að nefndin hefði breytt þessu frumv. til bóta. Mér finst hún í flestum atriðum hafa breytt því til hins verra. Eins og háttv. þm. Ak. tók fram, má eftir breyt.till. við 1. gr. segja bankastjórninni upp með 6 mánaða fyrirvara. Þetta finst mér ekki rétt. Það ætti þá að vera undir dutlungum stjórnarinnar komið, hvort bankastjórnin sæti til langframa eða ekki; en það gerði í mínum augum þá stöðu nokkuð ótrygga, og þegar staðan væri svo óviss, gæti það leitt til þess, ,að þessir menn yrðu ekki eins alúðarfullir og staðfastir við störf sín sem ella. Og því er eg móti þessu. Þá leggur nefndin til að gæzlustjórar verði eins og þeir hafa verið. Það getur nú verið gott, en þó held eg, að eftir því sem störf bankans aukast, að afgreiðslan hljóti að verða nokkuð þunglamaleg með því fyrirkomulagi sem verið hefir; því að mínu áliti eru gæzlustjórarnir of stuttan tíma í bankanum, og það mega ekki vera menn svo önnum kafnir, að þeir hafi ekki ráð á að gefa sig betur við þeim störfum. — Þá eru breyt.till. um launin. Eg játa að mér finst sem þessar tillögur fari í þá átt, að launin verði of há. Eg held að 5000 kr. ætti að vera nóg handa hvorum bankastjóranna. Eins er að nokkru leyti sú tillaga, að féhirðir bankans haldi sömu launakjörum og hann hefir nú. Það getur verið að það sé rétt, en þess er þó að gæta að laun hans vaxa eftir því sem umsetning bankans eykst. Svo hefir verið talað um, að ef núverandi bankastjóri lætur af starfi sínu áður en hann deyr, þá fái hann 4000 kr. í lífeyri eða eftirlaun; þetta tel eg of hátt. Þingið hefir tekið þá stefnu, að afnema eftirlaun, en þarna kemur annað fram, enda álít eg ekki ástæðu til að veita þessum manni svo mikil eftirlaun, þótt hann hafi stýrt bankanum í tæp 20 ár, því að þau eru hærri en eftirlaun fráfarandi ráðherra.

Þá er breyt.till. við 6. gr., að í stað orðsins »rannsaka» komi »skoða«, en þetta gerir að vísu ekki mikið til; en eg tel þó að orðið »rannsaka« sé það réttasta orð, sem hér verður notað. Eg geri ráð fyrir að koma með br.till. við 1. umræðu, ef allar þessar br.till. verða samþyktar nú, því að þótt þær sé mismunandi, þá eru þær þó yfirleitt til hins verra.

Hinn háttv. 5. kgk. þm. taldi ekki ástæðu til að setja 2 bankastjóra, þar eð stjórn bankans hefði ætið verið óaðfinnanleg hingað til. Það má ef til vill segja, en ekki hefir hann þó alténd verið þeirrar skoðunar.