15.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Lárus H. Bjarnason:

Sú br.till. sem eg hefi komið með á þgskj. 468 er komin til af því, að Nd. veitti nokkurt fé til aukakenslu við lagaskólann, og nú hefir mér verið leyft að hafa eftir nefndinni hér í Ed., að hún ætli að færa þá fjárveitingu úr 800 kr. upp í 1600 kr. Þessi viðaukatill. mín er því ekki annað en eðlileg afleiðing af fjárlögunum. Eins og menn vita, byrjar næsta skólaár 1. okt. 1909, en fjárlögin ganga ekki í gildi fyr en 1. jan. 1910, og þá eru þessar 400 kr., sem eg hefi farið fram á, hlutfallslegt kaup fyrir ársfjórðunginn frá l. okt. til l. jan. — En úr því að eg stóð upp, skal eg leyfa mér að benda lítilfjörlega á þá nauðsyn, sem ber til þess að auka kenslukraftana við lagaskólann. Eins og háttv. þingdm. er kunnugt, er skólinn nýbýli, og hér á landi hefir ekkert verið skrifað í þessari grein. Námsgreinar við skólann eru sex. í öðrum löndum er hafður kennari í hverri námsgrein, en hér eru hverjum kennara ætlaðar 3 námsgreinir, og eru þó allar órannsakaðar. íslenzki lagatextinn er alls um 18—19 þús. bls., og hverja línu í þessu þarf að rannsaka. Auk þess verður að kenna í árgöngum þegar nýir nemendur bætast við í skólanum. Og frá 1. okt. 1911 verða kennararnir að vera við því búnir, að prófa eftir sérstökum bókum þá menn, sem lokið hafa prófi við háskólann í Khöfn. Eg vona að háttv. þgdm. sjái, að það er alt of lítið, að hafa aðeins 2 kennara við skólann, ef hann á annað borð á að geta gegnt starfi sínu stórgallalaust. Þeir ættu að minsta kosti að vera 3 fastir. Eg vona að háttv. deild taki þessu vel, og það því fremur, þegar litið er til þess hve miklu fleiri kennarar eru við hina skólana, prestaskólann og læknaskólann, og eru þar þó ekki kend nein bein ísl. sérfræði. Akureyrarskólanum eru veittar 2500 kr. til aukakenslu, auk 3 fastra kennara. Við kennaraskólann eru 3 fastir kennarar, og auk þess veittar 1000 kr. til tímakenslu. Og til stýrimannaskólans, sem að eins starfar í fáa mánuði, eru veittar 1000 kr. til aukakenslu auk föstu kennaranna. Eg skal svo ekki fara frekar út í þetta fyr en eg heyri undirtektir háttv. þgdm.