25.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

58. mál, skoðun á síld

Ágúst Flygenring:

Eg vil að eins lauslega lýsa skoðun minni á þessu máli, því að mér finst frumv. ærið athugavert. Það er bezt að fara gætilega í það, að hefta atvinnufrelsi manna, þó ekki sé svo langt farið, sem í þessu frumv. það verður að gera sér það ljóst hvert hægt er að framkvæma slíkar fyrirskipanir. Ef hægt er að svara því neitandi, að ákvæðum þessa frumv. verði framfylgt án þess að draga úr framleiðslunni, verð eg að greiða atkvæði á móti því. En einkum verður þó að líta til þess, hvort kostnaður við framkvæmd laganna standi í réttu hlutfalli við gildi þeirra eða not að öðru leyti. Ef skoðunin á síld yrði kjörfrjáls, mundi lítill hluti manna nota hana. Það mundu margir hliðra sér hjá því að láta skoða sína síld, og verða svo ef til vill að kasta henni, eða sama sem, en flestir mundu heldur hætta á hitt, að senda hana út. Það má með engu móti banna útflutning á síld, enda þótt hún sé skemd og verði ekki höfð til manneldis. Það er ómögulegt að vita fyrir fram af útliti síldarinnar, hvers virði hún er. Stundum er síldin mögur, stundum feit, og stundum með átu. Það sem mest á ríður er það, að hún komist nógu fljótt á markaðinn. Skyldumat mundi tefja fyrir því. En annars er það eftirspurnin, sem mest áhrif hefir á markaðinn í hvert skifti, en ekki að öllu leyti gæði vörunnar. Fiskist of mikið, verður verðið lágt, hversu góð sem varan er. Síldarverð er afar óstöðugt. En það er rétt, sem flutningsm. tók fram, að þetta mál er athugavert og þýðingarmikið bæði fyrir tekjur landsjóðs og útgerðarmenn. Það má muna eftir því, að minni hlutinn af útfluttri síld frá Íslandi tilheyrir Íslendingum, en meiri hlutinn Norðmönnum, sem mestan aflann bera frá borði af þessari tegund fiskjar. Sú síld, er þeir flytja út héðan, mun því vera með sama marki brend, og verður þá einnig að vera sömu lögum undirorpin og okkar.

Eg get því að eins samþykt að þetta frumv. verði að lögum, ef það hefir ekki óhæfilegan kostnað í för með sér, og eins hitt, að mönnum leyfist að flytja út alla síld, án þess hún sé metin, og það jafnvel þó hún ekki verði notuð til manneldis; því að skemd síld getur einnig verið nokkurs virði og því útflutningsvara, bæði til olíu og áburðar; mér er það kunnugt, því að það hefi eg sjálfur reynt.

Enn er það mjög viðsjárvert, eins og háttv. þm. Strand. benti á, og frumv. gerir ráð fyrir, að leggja það á vald álitsmanna hvaða skip mætti brúka til síldarveiða, og fyrirskipa eftir geðþótta um útbúnað þeirra sem nota má til slíkra veiða; það gæti hreint og beint orðið til vandræða. Það þarf ekki annað en að sigla um Norðursjóinn og sjá þar alls konar skip, sem stunda síldarveiðar. Skip sem Hollendingar brúka eru mjög upp og niður, alls konar dallar, gamlir og bættir; það er nóg ef þeir fljóta og geta bjargað sér um sjóinn, dregið netin o. s. frv., en Hollendingar eru ein elzta og helzta fiskiveiðaþjóð Norðurálfu.

Allir vilja auðvitað framleiða sem mest og fá sem bezt verð fyrir vöru sína; hvorugt má tefja eða hamla með lögum. Eg tel það stórum annmörkum bundið og varhugavert, að skipa fyrir með lögum um verkun og fyrirkomulag um borð, að því er snertir þessa vöru. Að vísu er eg ekki beint á móti frumv. ef því væri breytt í kjörmat, en það þarf þess utan mikilla umbóta við, sem ekki er hægt að gera nema í nefnd.