24.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

66. mál, Húsavík eða Þorvaldsstaðir

Steingrímur Jónsson:

Eins og nefndarálitið sýnir, var eg ekki samdóma háttv. meðnefndarmönnum mínum. Eg var reyndar samdóma þeim um það atriði, að það bæri ekki að selja jörðina, fyr en Húsavíkurþorp er orðið sérstakt hreppsfélag. Og því hefi eg komið með breytingartill. í þá átt á þgskj. 574. En að öðru leyti get eg ekki séð neitt á móti því, að salan sé leyfð. Það er hvorki nein hætta á tapi fyrir landsjóð, né heldur um neina aðra hættu að ræða, sem af sölunni gæti leitt.

Háttv. framsögum. meiri hlutans kvartaði mikið yfir því, að engin skjöl lægju fyrir þinginu þessu máli viðvíkjandi. Eg held að það hafi oft verið samþykt stærri mál en þetta á þinginu, án þess að nokkur skjöl lægju fyrir eða nokkrar upplýsingar, aðrar en umsögn flutningsmanns sjálfs. En eg vona sérstaklega að háttv deild taki tillit til þess, að það er ekki umsækjendum að kenna, að skjölin liggja ekki fyrir. Eg gaf upplýsingar um það við síðustu umr. hvernig á því stæði, og eg vona að háttv. deildarmenn hafi tekið mig trúanlegan. Það kemur því hart niður á umsækjendum og óverðskuldað, ef þeim verður synjað um kaupin fyrir þá sök.

Eg hefi skýrt frá því áður, að matið, eða áætlun um sennilegt verð jarðarinnar, sem fór fram 1907, var bygt á því sem sanngjarnt þótti eftir þeim tekjum, sem af henni höfðu fengist næstu 5 ár á undan, og verðið var nokkuð fyrir neðan 24 þús. kr. Áætlun þessi var gerð með mikilli nákvæmni, og verður varla hægt að fá betri grundvöll til að byggja á. Stjórnin mundi auðvitað heimta allar skýrslur þessu viðvíkjandi, og ekki selja jörðina ella, svo að það ætti að vera útilokuð öll hætta á tapi fyrir landsjóð.

Þá hefir meiri hluti nefndarinnar haft það á móti frumv., að ekki hafi verið fengin umsögn æðri stjórnarvalda. Eg skýrði frá því við 1. umr., að fyrverandi biskup hefði tekið vel í málið, en að eins ekki getað ákveðið verðið. Eg skýrði ennfremur frá því, að núverandi biskup væri málinu hlyntur, að eins að prestur hafi nokkra grasnyt. Til þess að færa sönnur á mál mitt, skal eg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp yfirlýsingu biskupsins um þetta mál, og er hún svo hljóðandi:

»Alþingismaður Steingrímur Jónsson hefir beiðst álits míns um frumvarp það, er hann flytur á þingi um sölu á prestssetrinu Húsavík með kirkjujörðinni Þorvaldsstöðum.

Þegar Húsavíkurþorp er orðið sérstakt sveitarfélag tel eg þorpsbúa sjálfa maklegasta þess, að eiga það land, sem þeir hafa komið í verð, og með þeim hætti verði landið einnig bezt nytjað.

Nauðsynlegt tel eg vegna komandi presta, sem eiga að sitja í kaupstað með 1300 kr. launum, að hin eftirskilda grasnyt sé sem ríflegust.

Um verðið get eg ekki sagt, þar sem eg hefi engin gögn fyrir mér til að meta það; en hér ræðir auðvitað að eins um heimild til sölunnar.

Verði hæfiiegt verð boðið fyrir landið, og hinn þjónandi prestur í Húsavík, sem enn er undir hinum eldri launalögum, samþykkir söluna, og eftir er skilið stórt tún eða túnstæði handa presti þar, mun eg mæla með sölunni, ef til kemur.

Þórh. Bjarnarson« .

Eins og af þessu bréfi biskupsins má ráða, er hann meðmæltur sölunni, og að hún eigi sér stað nú þegar.

Hvað verð jarðanna snertir, þá hefir Húsavíkurjörð verið metin að hundraðatali 41,3 hdr. og hjáleigan Þorvaldsstaðir 5,6 hdr. (til samans 46,9 hdr.). Þetta er matið 1861, og býst eg við að það sé tiltölulega talsvert hátt; þá voru sem sé hlunnindi tekin til greina, sem nú eru horfin að kalla má: útselsveiði allmikil í nót, sem síðan er horfin. En hvað sem því líður, hygg eg engum blandast hugur um, að verðið, sem eg nefndi, sé hið mesta, sem um sé að ræða. — Hvað undirbúning málsins snertir, þá má óhætt segja, að hann sé mjög góður, ekki sízt hvað verðið áhrærir. Og sé eg ekki annað, en að landsjóður megi vel við söluna una með þessu verði, og hann beri sinn hlut óhallan frá borði. Annars ætti það sízt að vera meining landsjóðs, að fara að pína þorpsbúa hið ýtrasta í þessu máli.

Nefndin benti á, að henni þætti það athugavert við söluna, að sú stefna mundi vafalaust heppilegust í framtíðinni, að kaupstaðir fengju ekki ótakmarkaðan rétt yfir landeignum þeirra. Þessi ástæða ber í sér hið hroðalegasta misrétti í samanburði við það mál, sem fyrir var í gær (salan á Kjarna); sé það meiningin, að fara að takmarka umráðarétt kaupstaðanna á landeignum, þá yrði það að minsta kosti að vera almenn regla, en ekki nú alt í einu að fara að byrja slíkt á Húsavík, alveg gagnstætt því sem fram kom síðast í gær, þar sem nákvæmlega eins stóð á. Að gera sérstakar undantekningar í þessu efni nú væri alveg ófært, og misrétti gagnvart þeim stöðum, sem eins stendur á fyrir, en sættu þó gjörólíkri meðferð. Að fella söluna af þessum ástæðum er ekki að eins rangt gagnvart hlutaðeigandi þorpi, heldur einnig mjög óhyggileg ósamkvæmni, svo að mér finst að slíkt geti ekki náð nokkurri átt. Vona eg því að hver maður sjái, að það sem farið er fram á í þessu máli, er ekki nema hið allra sanngjarnasta. Hitt, að ekki sé nægileg gögn fyrir hendi, hefir heldur ekki við rök að styðjast, þó beint mat á jörðinni hafi að vísu ekki farið fram. En slíkt álít eg hreint ekki sanna hóti meir viðvíkjandi jörðinni, en góða og greinilega lýsingu, sem fram er komin. Vona eg því, að deildin samþykki sölu þessa, eða láti að minsta kosti málið ganga til 3. umr.