13.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

67. mál, úrskurðarvald sáttanefnda

Lárus H. Bjarnason:

Þegar frv. var til 2. umr. hér á dögunum, var vitnað til norskra laga, og tilvitnunin höfð frumv. til meðmæla. Þessi tilvitnun var röng; annaðhvort hafði háttv. þm. ekki lesið lögin eða þá farið rangt með þau. Þar er sáttanefndum að vísu fengið úrskurðarvald í vissum málum, samkvæmt lögum 3. maí 1869, en þó má alt af skilyrðislaust skjóta úrskurði sáttanefnda til undirréttar, og það fyrir ekki neitt. Héraðsdómurunum er enda upp á lagt, að greiða sem mest fyrir þessum málum, og málsaðilar mega koma með öll mótmæli og sannanir, sem ekki hafa komið til greina fyrir sáttanefnd.

Úr frumv. því, er hér liggur fyrir, eru aftur á móti öll ákvæði pilluð, sem í norsku lögunum eru sett til að rétta hlut ákærða.

Hér á landi er heldur engin þörf á þessum lögum. Þau kunna að vera þörf í fólksríkari löndum, eins og Noregi, enda koma þau þar að nokkru leyti í stað sérstakra skuldadómstóla, sem enn eru til sumstaðar, og sérstaklega í stórbæjunum, eins og t.d. í Khöfn. Hér á landi er svo lítið um málaferli, einkum til sveita, eins og sjá má í skýrslu um gjörðir sáttanefnda. Reyndar vill svo óheppilega til, að hætt hefir verið að prenta þessar skýrslur; sú síðasta skýrslan var gefin út 1904 og var fyrir árið 1903. Í þeirri skýrslu sést, að 108 málum hefir verið vísað frá sáttanefndum í 21 héraði. Af þeim voru 27 í Reykjavík. Og meiri hlutinn af þessum 108 málum hefir líklega snúist um annað en skuldir, og sum mál, sem risu af skuldum, hafa vafalaust verið um stærri skuldir en hér er um ræða.

Mér vitanlega hafa heldur engar raddir komið frá þjóðinni um að semja svona lög, en þetta frumv. er samið, eins og eg tók fram við 1. umr., af nefnd, sem í sátu fjórir skuldheimtumenn.

Eg vil ennfremur benda háttv. þingdeildarmönnum á annað atriði í sambandi við þetta frumv., og það er það, að verði þetta gert að lögum, mundi það miklu fremur stuðla til þess að auka skuldasúpuna en þess að minka hana, því að kaupmenn mundu síður gæta hófs í útlánum, er vöndurinn lægi svo nærri, og þeir ættu svo hægt með að ná inn skuldum sínum.

Frumv. er heldur ekki í samræmi við gildandi lög. Nú má áfrýja málum til yfirréttar, sem nema 4 krónum, en eftir þessum lögum kæmust 50 kr. mál að jafnaði ekki einu sinni til undirréttar. Auk þess er dómurum nú heimilaður sex vikna frestur til að kveða upp dóma, en hér eiga ólögfróðir menn að úrskurða málin þegar í stað eða í síðasta lagi innan viku. Loks á stefndi, er ekki mætir í rétti, kost á að fá málið tekið upp aftur, ef hann fer þess á leit innan 14 daga, en hér á hann þess engan kost.

Að svo mæltu ræð eg til að fella frumvarpið.