26.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Framsögumaður (Sig. Stefánsson):

Eins og sjá má á nefndarálitinu leggur nefndin til að frumv. verði samþ. óbreytt. Útgjöldin hafa verið nokkuð hækkuð í neðri deild, og þó að sumir nefndarmennirnir væru ekki alveg samþykkir þeim hækkunum, þá varð það þó ofan á, að gera ekki breytingar á frumvarpinu héðan af.

Það hefir verið bætt við nýjum útgjaldalið í 2. gr. frumv. Það er 1800 kr. fjárveiting til þess að byggja fjós, hlöðu og safnþró handa geðveikrahælinu á Kleppi. Það kom erindi þessu viðvíkjandi frá lækninum á Kleppi, en barst þessari deild of seint til þess að fjárveitingin gæti komist inn í fjáraukalögin hér um daginn. En nú hefir Nd. tekið hana upp og nefndin ræður háttv. deild til að samþykkja hana. Það er augljóst, að þessi fjárveiting er bráðnauðsynleg og getur orðið til að spara landsjóði fé á þann hátt, að reksturskostnaður geðveikrahælisins minkar við það, að útgjöld til mjólkurkaupa sparast. Það stendur svo á, að það er töluverður túnblettur á Kleppi, sem læknirinn vill halda í rækt og bæta, en það vantar bæði fjós og hlöðu, og það sýnist vera sjálfsagt að bæta úr því.

Þá hefir verið gjörð breyting að því er snertir Austfjarðabátinn. Í staðinn fyrir 3 ferðir til Vestmannaeyja er nú ætlast til að báturinn fari eina ferð alla leið til Reykjavíkur og aðra til Vestmannaeyja og komi við í Vík í báðum ferðum fram og aftur.

Þá hefir verið bætt við nýjum lið, ótölusettum, í 6. gr. frv. Það eru 10 þús. kr. til viðskiftaráðunauta erlendis. Þessi fjárveiting er sjálfsagt komin inn á lögin eftir hvötum hæstv. ráðherra, sem mun hafa í hyggju að nota hana ef hæfir menn fást Upphæðin er sjálfsagt óþarflega mikil, þegar litið er til þess, hve skammur tími er eftir af fjárhagstímabilinu, og litlar líkur til, að hæfir menn fáist í snatri. En það getur ekkert gert til þó að upphæðin standi í lögunum. Féð kemur auðvitað ekki til útborgunar, ef ekki verður þörf fyrir það. Hins vegar er rétt, að stjórnin hafi heimildina til fjárins, ef til kæmi að henni byðust 2 hæfir menn í stöðurnar. Eg skal líka taka það fram, að ef ráðist er í að stofna þessi viðskiftaráðunauta embætti, má alls ekki skera launin við neglur sér. Þeir eiga að hafa svo áríðandi störf með höndum, að það er öldungis nauðsynlegt að þeir geti verið fjárhagslega óháðir menn. Því verður að gera þá vel úr garði hvað launin snertir. Enda ætlast ráðherra til, að þessir menn gefi sig óskiftir við starfinu, en hafi enga aðra atvinnu jafnframt.

Það hefir komið fram breyt.till. um að færa upphæðina niður um helming. En eg sé ekki ástæðu til að greiða atkv. með þeirri tillögu af þeim ástæðum, sem eg gat um áðan, að ef ekki verður brúk fyrir fjárveitinguna, gjörir ekkert til, þó að hún standi, en verði þörf fyrir hana, væri ilt ef stjórnina bristi heimild til fjárins.

Þá hefir önnur breyttill. verið gjörð við 6. gr. þess efnis, að bætt hefir verið við 10 þús. kr. til að mæla innsiglingu á Gilsfjörð. Þessi fjárveiting var feld hér í deildinni um daginn, en Nd. hefir sett hana inn aftur. Meiri hluti nefndarinnar vill ekki gera þetta að kappsmáli milli deildanna og ræður því til að samþykkja fjárveitinguna. Að vísu er ekki mikil skipasigling inn fjörðinn, en það eru þó æði mikil kaupfélagsviðskifti þar á tveimur stöðum, og er mjög bagalegt að geta ekki fengið skip til að koma inn á hafnir, sem þar eru þó til allgóðar, bæði í Salthólmavík og í Króksfjarðarnesi. Því vill nefndin ekki gjöra þetta að kappsmáli milli deildanna, einkum þegar þess er gætt, að málið hefir nú verið á dagskrá í mörg ár, og er héraðsbúum mjög mikið ábugamál.

Þá er ein viðaukatill. við 8. gr. þess efnis, að fjárhæðinni til sýsluvegar frá Hafnarfirði til Vogastapa megi verja til vegarins frá Hafnarfirði til Keflavíkur. Eg veit ekki hve nauðsynleg þessi breyting er, en býst við að flutningsmaður gjöri grein fyrir henni. En eg þykist geta fullyrt það fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar, að hann muni ekki vilja hleypa fjáraukalögunum í sameinað þing vegna þessa atriðis eins.