05.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

76. mál, farmgjald

Steingrímur Jónsson:

Eg vildi leyfa mér að spyrja, hvort mál þetta er á dagskrá; það stendur á dagskránni fyrir 5. maí, en eg veit ekki betur en að nú sé kominn 6. maí. (Forseti: Eg úrskurða að það sé 5. maí). Nú, eg ætla þá samt ekki að tala mikið, en verð þó að gera nokkrar athugasemdir. Eg álít þá aðferð sem höfð er í máli þessu alveg óforsvaranlega. Frumv. kemur fram í 9. eða 10, viku þingtímans og á svo að keyrast fram með þeim hraða, sem þingsköp frekast leyfa. Hér er þó um mjög merkilegt skattamál að ræða, því að í þessu frumvarpi er í fyrsta skifti farið fram á, að leggja á alment verzlunargjald, því að verzlunargjald er það, enda þótt það sé nefnt farmgjald. Gjald þetta er að vísu ekki hátt, en það kemur ranglátlega hart niður á sumum vörutegundum, og það er víst, að sé einu sinni búið að leggja gjaldið á, þá verður sú aðferð höfð, að hækka það eftir því, sem peningaþarfir landsjóðs heimta. Eg er því eindregið meðmæltur að leggja svo fljótt sem hægt er á alment verzlunargjald, en að byrja með farmgjaldi sem lagt er á af hundahófi, greiðir ekki fyrir þeirri hollu og góðu hugsun. Það er því miklu frekar af velvild til málsins, en af því að eg vilji þvælast fyrir því, að eg greiði atkvæði móti frumvarpi þessu að þessu sinni.