22.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

81. mál, unglingaskólar

Framsögum. (Sigurður Stefánsson:

Ástæðurnar fyrir tillögu þessari eru teknar fram í nefndaráliti nefndar þeirrar (A. 223), er hafði til athugunar þingsályktun um stofnun gagnfræðaskóla á Ísafirði, og hefi eg þar litlu við að bæta. Eg verð að telja rétt, að landsjóður í þessu efni sinni þörfum héraðanna. Skólar þessir eru liðir í alþýðumentuninni. Því er nú svo varið, að hin lögskipaða uppfræðing, er lokið er við ferminguna, ber mjög misjafnan árangur, sem við er að búast. Bæði eru hæfileikarnir mjög misjafnir, og auk þess geta ýms önnur atvik komið þar til greina. Eg og nefndin eru þess fullviss, að unglingar 18—19 ára eru bezt hæfir til þess að taka á móti fræðslu, er þeim má að verulegu gagni koma. Vér Íslendingar erum yfir höfuð seinþroska, og reynsla mín er sú, að unglingar læra meira á 1 ári á þeim aldri, en tveim eða þrem árum fyrir innan fermingu. Sú stefna, að styrkja slíka unglingaskóla er því mjög heppileg, enda sýnir það sig, að þar sem slíkir skólar eru komnir á fót, bera þeir góðan ávöxt; t. d. hefir einn slíkur skóli verið settur á stofn í Strandasýslu, og er eg viss um að sýslubúar þrá ekkert meira, en að sá skóli gæti þrifist. Þá vakti það og fyrir nefndinni, að unglingaskólar þessir myndu geta orðið milliliðir milli barnaskólanna og gagnfræðaskólanna, og mætti skipa fyrir um það samband með reglugjörð, svo að nemendur gætu af unglingaskólunum gengið inn í 1. bekk gagnfræðaskólanna og ef til vill inn í 2. bekk, en nú geta fermingarhæf börn tæpast gengið inn í gagnfræðaskóla undirbúningslaust. Nefndin vill að sjálfsögðu ekki, að nein slík reglugjörðarákvæði verði sett, er gjöri mönnum erfiðara fyrir að færa sér fræðslu slíkra skóla í nyt, svo sem með því að binda styrkveitingu úr landsjóði við stór fjárframlög af hendi hlutaðeigandi héraða, eða með öðrum þvílíkum ákvæðum, en hitt telur hún heppilegt, að gera þá að millilið milli barnaskóla og gagnfræðaskóla. Nefndin telur sjálfsagt, að landstjórnin hafi hönd í bagga með, að því er snertir stjórn slíkra skóla, og setji þeim ákveðnar reglur, enda bein skylda fjárveitingarvaldsins, að hafa eftirlit með, hvernig þær stofnanir eru, sem það veitir fé til. Eg vona að deildin fallist á tillögu þessa, og skal því ekki fara um hana frekari orðum.