03.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

86. mál, Landsbankarannsókn

Steingrímur Jónsson:

Eg ætla ekki að blanda mér í kappræður þeirra hæstv. ráðherra og háttv. fyrirspyrjanda, en eg álít mér skylt að gefa þá yfir lýsingu, að eg get verið hæstv. ráðherra þakklátur fyrir svör hans um fyrirspurnina. Þegar eg tengi svör hans hér saman við svör hans í Nd. þann 28. f. m., þá er eg honum þakklátur að því efni svaranna snertir; það er fyrir mér aðalatriðið að fá yfirlýsingu af vörum ráðherra um, að fyrirskipunin hafi ekki verið bygð á, að nokkuð væri athugavert á ferðum við Landsbankann, og að hæstv. ráðherra hefir gert alt sem hann gat til þess að láta það verða kunnugt, að ráðstöfunin hafi ekki verið gjörð af umgetnum ástæðum. Þetta er fyrir mér aðalatriðið og með það er eg ánægður.

En eg er ekki ánægður með formið á svari hans, því þar finst mér kenna meira kapps en mér þykir við eiga; og fullyrðingar hans um að starfsmenn bankans og minni hlutinn á þinginu og hans fylgismenn hafi verið að gera tilraun til þess að reyna að mynda »run« — aðsúg — að bankanum finst mér vera svo þungar ásakanir, að mér þykir ekki annað eiga betur við en að segja eins og karlinn: »Þetta má kanske hugsa, en það má ekki segja«. Orð eins og þessi má hrygginn stjórnmálamaður ekki láta sér um munn fara þó honum detti þau í hug. Hæstv. ráðherra sagði, að málefni þetta væri svo smávægilegt að ekki tæki að vera að eyða dýrmætum tíma þingsins til þess að tala um það. En hér verð eg að vera á algjörlega á öðru máli. Þegar skipuð er nefnd með löngu skipunarbréfi og víðtæku starfsviði, og sem almenningur hlýtur að líta á líkt og það væri sakamálsrannsóknarnefnd, þá er ekki ólíklegt að menn fari að hugsa, hvers vegna þetta sé gert og auðvitað verður fyrst fyrir mönnum svarta hliðin og þá fer ekki hjá því, að landsmenn haldi að hér sé hætta á ferðum; þess vegna fanst mér rétt og sjálfsagt að knýja fram sem fyrst opinbera yfirlýsingu, sem skýrði hvernig í þessu lægi.

Hæstv. ráðherra kom fram með nokkur atriði, sem frá hans sjónarmiði voru beinar ástæður fyrir þessari nefndarsetningu, og eitt af þeim voru bankareikningarnir. En eg hygg, að hafi verið ástæða til að fara að tala um að þar hafi ekki alt verðið sem skyldi, þá hafi sökin verið hjá stjórnarráðinu, en ekki bankastjórninni.