08.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Stefán Stefánsson:

Það eru fyrst nokkur orð út af orðum háttv. 2. þm. Húnv. (B. S) viðvíkjandi framkvæmd fræðslulaganna úti um landið. Hann sagði, að lögunum mundi víða alls ekki framfylgt, og þar sem fræðslusamþyktir þó væru komnar á, væri þeim framfylgt svo, að það væri hreinasta kák. Eg er nú kunnugastur í Eyjafirði og get frætt háttv. þm. um það, að þar er lögunum fylgt svo sem framast verður í flestum hreppum sýslunnar, bæði hvað kensluna sjálfa og áhöldin snertir. Hann mun aðallega hafa dregið þessa ályktun sína út frá því, hve litlu fé hefir sumstaðar verið varið til kensluáhaldakaupa síðastliðið ár. En það er alveg rangt að draga þá ályktun af því, vegna þess að fjöldi hreppa var búinn að kaupa mikið af áhöldum fyrir árið 1910. Og þótt það standi í þessari skýrslu, sem hann hefir fengið og hefir fyrir framan sig, að í Eyjafjarðarsýslu hafi verið varið 300 kr. til áhaldakaupa, þá er það öldungis víst, að búið er að verja til þessa 5—700 kr. samanlagt í öllum hreppunum. Í sumum hreppum eru t. d. til þrenn áhöld, og eftir því sem eg veit bezt, eru það ekki yfir 1 eða 2 hreppar, sem ekki eiga kensluáhöld. Það sést því, hvílík fjarstæða er að draga af þessu þá ályktun, að lögunum sé illa fylgt. Þessi orð háttv. þm. eru því úti á þekju töluð, og sýna ekki annað en það, að hinn háttv. þm. er í hjarta sínu á móti lögunum og vill sem minst gera úr viðgangi þeirra. En eg er þess fullviss, að lögin hafa gert mjög mikið gagn síðan þau gengu í gildi 1907; í það minsta hafa þau orðið til þess, að hinir fátækari hafa jafnt getað notið mentunar fyrir börn sín og hinir efnaðri, sem áður fór mjög fjarri allvíða; þetta er líka aðaltilgangur laganna, og hann næst því betur sem menn venjast þeim lengur. Ákvæðum þeirra er nú fullnægt í 162 hreppum, og eftir fræðslumálastjóra er það haft, að menn séu yfirleitt mjög ánægðir með lögin, enda engar tillögur komið fram til breytingar. Það virðist því ástæðulítið að vera að ráðast á þessa réttarbót. (B. Sigfússon: Eg hefi alls ekki lastað lögin). Því að vera þá að tefja fyrir framkvæmd þeirra enn um tvö ár, og telja viðleitni almennings þeim til framkvæmda kák?

Þá vildi eg minnast á ummæli hins háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. O.), þar sem hann kallaði það krókaleið, er við þm. Eyf. leggjum til, að Grundarkirkju verði lögð til viðhalds prestsmatan af Grund, sem er 2 hdr. á landsvísu, og gengur að ? til sóknarprestsins, en ? til Akureyrarprests. Þessi leið sýnist okkur flutningsmönnum beinasta leiðin, sem farin verður til þess að styðja að viðhaldi kirkjunnar, vilji þingið annars virða svo dugnað og höfðinglyndi Magnúsar bónda Sigurðssonar á Grund, að það opinbera eftir ósk hans leggi þessa litlu upphæð, 120 kr., fram árlega. Það væri krókaleið, ef farið væri fram á, að viðhaldið væri borgað úr prestlaunasjóði að sama hluta og mötunni nemur, þar sem prestmatan gelst þar á staðnum. Það er ekki líklegt, að þessi prestmata þyrfti lengi að ganga til viðhalds kirkjunni, því sennilega legst meira eða minna af nærliggjandi sóknum til Grundarkirkju áður mjög langt líður, og þá aukast svo tekjur hennar að líkindum, að hún þyrfti þá ekki lengur að njóta prestmötunnar sér til viðhalds. Eg hugsa, að h. háttv. þingdm. virði svo mikils þetta lofsverða einsdæmi Magnúsar, þar sem hann á eigin kostnað byggir upp kirkjuna og ver til þess úr sínum vasa fullum 25 þús. kr. Eg þykist mega treysta því, að þingm. lítilsvirði ekki svo þessi tilmæli hans, að þeir felli fjárveitinguna. Og eðlilegt er, að hann kunni því illa að bera að miklu leyti viðhald kirkjunnar, auk þess mikla fjár, sem hann hefir til hennar kostað.