04.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Ólafur Briem:

Eg vildi leyfa mér að minnast á þær fáu breyt.till., sem eg er viðriðinn. Það er þá fyrst breytingartillagan á þgskj. 851, viðvíkjandi Skagafjarðarbrautinni. Fjárveitingin til hennar, 10 þús. kr. hvort árið, var samþykt hér við 2. umr. óbreytt, eins og hún kom frá stjórninni. En sú breyting hefir orðið á þessu í háttv. Ed., að fjárveitingin fyrir árið 1912 hefir verið feld burtu. Hefir þetta að líkindum orðið fremur fyrir slys en af ásettu ráði, þar eð aðalástæðan, sem borin var fram fyrir því, var sú, að landssjóði bæri fremur að leggja til þeirra vega sem á honum hvíldu að lögum en annara vega. En nú víkur því einmitt svo við, að eftir vegalögunum frá 22. nóv. 1907 hvílir á landssjóði skylda til að leggja fram fé til þessa vegar. Er því síður ástæða til að draga úr fjárveitingunni, þar sem hún hvílir á landssjóði samkv. lögum. Og hér er því heldur ekki um neinn sparnað að ræða. Vona eg því, að breytingartillagan verði samþykt.

Þá vildi eg minnast á breyt.till. á þgskj. 910, tölul. 8 við 14. gr. A. b. 6., er sérstaklega snertir kjördæmi mitt. Fer hún fram á að fella burtu það ákvæði, að landssjóður greiði 400 kr. álag á Viðvíkurkirkju. í háttv. efri deild hefir verið gerð glögg grein fyrir þessu. Það er víst enginn vafi á því, að þetta er upphaflega lögmæt krafa. En henni hefir enn ekki verið fullnægt, af því að ekki hefir verið gengið ríkt eftir henni á þeim tíma, sem hún á féll. Krafan stafar af því, að Viðvík var upphaflega landssjóðseign, en var seinna makaskift fyrir lénsjörðina Hjaltastaði. Af þessu leiddi, að landssjóður hlaut að greiða álag á kirkjuna við afhendingu hennar til prestakallsins, eftir löglegu mati úttektarmanna. Það getur því enginn ágreiningur verið um, að krafan er sanngjörn og réttmæt, og vona eg því að tillagan verði samþykt, enda þótt þetta hafi dregist svona lengi. Hér er alls ekki um lagalega fyrningu á kröfunni að ræða, þar sem svo mátti heita, að beggja meginn væri sami málsaðili, sem sé hið opinbera, annars vegar landssjóður og hins vegar kirkjustjórnin.

Að því er snertir breyt.till á þgskj. 910, tölul. 20 við 16 gr. 1. d., um að fella burtu fjárveitingu til byggingar á leikfimishúsi á Hólum, skal eg geta þess, að mér skildist það á háttv. framsögum. fjárlaganefndar (B. Þ.), að fjárveiting þessi væri ekki bráðnauðsynleg. En þess ber að gæta, að eftir lögum um stofnun bændaskóla 10. nóv. 1905, er skylt að kenna leikfimi við bændaskólann á Hólum. Og til þess, að þeirri lagaskyldu verði fullnægt, verður ekki komist hjá því að byggja sérstakt hús fyr eða síðar, og þá sýnist engin fullgild ástæða til að fresta því, enda hefir þegar verið veitt fé úr landssjóði til leikfimishússbyggingar við bændaskólann á Hvanneyri.

Þá vildi eg víkja að breyt.till. á þgsk. 893, sem fer fram á, að 22. gr. fjárlaganna, sem hljóðar um lánveitingar úr landssjóði, falli niður. Þessi tillaga er skyld breyt.till. á þskj. 902, sem fer fram á að sumar af umræddum lánveitingum falli burtu. Fyrir mér vakir það, að erfitt muni reynast að gera upp á milli lánanna og að till. á þgskj. 902 sé að því leyti óheppileg. Væri því réttara að taka þvert fyrir allar lánveitingar, enda fæ eg ekki séð, að landssjóður verði fær um að sinna þeim, eftir því sem fjárhag hans er komið. Það er venjulega farið fram á að lán úr landssjóði séu veitt með 4% ársvöxtum. Þetta er undarlegt, þar sem landssjóður sjálfur þarf að taka fé að láni og svara af því 4½% ársvöxtum. En aðalatriðið er þó, að landssjóður er ekki fær um að veita þessi lán og að of langt er stigið í þessa átt. Afleiðingin af því, að öllum þessum nýju lánveitingum væri bætt við á fjárlögin, yrði sú, að ef þau yrðu veitt, hlyti landssjóður að lenda í miklum kröggum, þar eð hann er orðinn talsvert bundinn af lánum. Hann er einnig í allhárri skuld við ríkissjóð Dana, sem getur orðið krafin hvenær sem vera skal, og mun sú upphæð við árslok 1910 hafa numið fullum 400 þús. kr. En þó að þessi grein fjárlaganna væri látin standa, gæti hugsast að svo færi, að engin lán væru veitt. En þá er greinin ekki að eins gagnslaus, heldur jafnvel skaðleg, því að bæði væri það óþægindi fyrir stjórnina að vera einlægt að fá þessar lánbeiðnir og svo mundi það einnig vera hvimleitt fyrir lánbeiðendur að vera, ef til vill, lengi að draga sig eftir þeim. Og ef lán væri veitt sumum en ekki öllum, þá væri vandasamt að gera upp á milli lánbeiðenda. Það er því réttast, hvernig sem á málið er litið, að fella greinina alveg burtu, enda ættu hlutaðeigendur að geta fengið lán í bönkum gegn sömu tryggingu og þeir mundu setja landssjóði.