05.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Sigurður Sigurðsson:

Þegar fjárlagafrv. kom frá Ed., þá var það með 324 þús. kr. tekjuhalla. Nú eru fram komnar margar breyt.till., sem flestar hækka útgjöldin, frá því sem er, og nemur sú hækkun samtals 190 þús. kr. Af þeim er lengst fara í þá átt, er br.till. frá háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.), um 50 þús. kr. árlegan styrk til háskólabyggingar. Eg verð nú að segja, að mér að minsta kosti finst það vera einkennileg aðferð, nú á síðustu stundu, að vera að koma með brtill. um miklar hækkanir á fjárl.frv. ofan á það, sem er. Lítur það svo út, sem því fylgdi meira gaman en alvara. En sé það alvara hjá háttv. þm., þá freistast maður til að halda, að þeir hinir sömu séu ekki með réttu ráði.

Breyttill. þær, er eg hefi leyft mér að koma með eru ekki margar né margbrotnar, og miða að því að græða og klæða landið.

Brtill. mín á þgskj. 892, fer fram á það, að veitt sé fé til sandgræðslu Meðallands í Skaftafellssýslu, að upphæð 3500 kr. Sveit þessi er lítil og fátæk og liggur undir ágangi af sandfoki, sem hefir eyðilagt þar margar jarðir. Nú fyrir skömmu fengu bændur þar skógfræðing Koefoed-Hansen til að skoða, hvort ekki væri hægt að bæta úr þessu og hefta sandáganginn; álítur hann, að hægt sé að stemma stigu fyrir sandfokinu með því, að veita vatni á sandinn, og að þeir muni þá smátt og smátt gróa upp. Kostnaðurinn við þessa vatnsveitu álítur hann, að muni nema 3500 krónum.

Til upplýsingar skal eg geta þess, að allar jarðir í Meðallandi eru eign landssjóðs og áætluð verðhæð þeirra 8—10 þús kr. Hér er því um fjárstyrk að ræða, sem nemur ? hluta af verði jarðanna. Ef ekkert verður gert bráðlega til að stemma stigu fyrir sandfoki þessu, verður eigi annað séð, en að mestur hluti Meðallandsins fari í sand eftir nokkur ár, og er því sveitin í voða. Menn sjá nú af þessu, sem fram hefir verið tekið, að hér er um nauðsynjamál að ræða, og að beðið er um styrk til að vernda eign landssjóðs. Eg skal geta þess, að eg flyt brtill. þessa sumpart eftir beiðni þm. V.-Sk. (G. Ó.) í Ed. og svo sumpart vegna þess, að eg hefi áður verið riðinn við þetta sandgræðslumál, og mér er það þess vegna persónulega kunnugt.

Þá er brtill. á þgskj. 908, þar sem farið er fram á að kaupa skógarsvæði í Öndverðarnesi í Grímsnesi. Svæði þetta er um 50—100 dagsláttur að stærð, og liggur undir skemdum af mannavöldum. Eru þar enn miklar skógarleifar. Auk þess er svæði þetta sérstaklega fagurt — fögur fjallasýn, Sogið á aðra hönd og Álftavatn á hina, og landið umhverfis mjög tilbreytilegt — og eykur það verðmæti þessa lands. Það er því enginn efi á því, að landssjóður gæti á margan hátt gert sér skóglendi þetta arðberandi, og vona eg að háttv. deild sjái sér fært að samþykkja tillöguna.

Þá er breyt.till. á þgskj. 907, en um hana skal eg ekki fjölyrða, einkum þar

sem háttv. 1. þm. Húnv. (H. G.) hefir komið með samskonar tillögu og gert grein fyrir henni.

Þá er loks breyt.till. á þgskj. 869, þar sem eg og háttv. 1. þm. G.-K.

(B. Kr.) förum þess á leit, að Sigmundi Sveinssyni bónda á Brúsastöðum verði veittar 8000 kr. að láni, til að kaupa Valhöll og Miklaskála á Þingvöllum og til þess að endurbæta þær byggingar og gera þær eigulegri og gistilegri. Samflutningsm. minn fór mörgum orðum um mál þetta við 2. umr. og upplýsti það, og er því engin ástæða til, að endurtaka það hér, sem þá var sagt. En eg vil aðeins geta þess, að nú er lánbeiðnin færð úr 10 þús. kr. niður í 8 þús. kr. og vextir hækkaðir upp í 4½%. Vona eg því, að deildin sjái sér fært að sinna þessari fjárbeiðni.

Áður en eg sest niður, vil eg minnast á brtill. 897 frá 3 þingmönnum, þeim 1. þm. Rvk. (J. Þ.), þm. Dal. (B. J.) og þm. N.-Þing. (B. Sv ). Tillagan er lítil fyrirferðar og fer fram á það, að svifta smjörbúin landssjóðsstyrknum. Meiningin hefir víst verið sú, að hafa hana svo litla, til þess, ef auðið væri, að villa mönnum sjónir. Þar að auki er hún svo naglaleg, eins og við var að búast, þar sem 1. þm. Rvk. (J. Þ.) á í hlut. En eg heyri nú í þessu, að nafn 1. þm. N.-Þing. (B. Sv.) hafi slæðst með af misgáningi og þykir mér vænt um það.

Eins og menn muna, þá var mál þetta mikið rætt við 3 umr. og skildist mér þá að deildin sætta sig við, að styrkurinn til smjörbúanna færi lækkandi um 2000 kr. á ári og að þegar búin væru orðin 10 ára gömul, þá nytu þau einkis styrks úr því. Þetta var samþykt og verð eg fyrir mitt leyti að segja, að með þessu var gengið nógu langt, og meir en það. Kemur það því meir kynlega fyrir sjónir, að nú skuli þessi afturganga vera vakin upp á ný öllum til leiðinda og þeim til ergelsis og skapraunar, er unnu vexti og viðgangi smjörbúanna. Eg vildi leiða athygli manna að skrípistillögu þessari og vona um leið fastlega, að deildin meti hana að verðleikum og felli hana.

Að endingu vil eg fara örfáum orðum um þær breyt till., sem hafa komið fram um það að fella burtu ýmsa liði í 22. gr. Lengst fer í því efni till. h. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.). Hann vill fella alla greinina burtu. Um þá till. þarf eg ekki að fara mörgum orðum, því að lítil líkindi eru til þess, að hún verði samþykt. En það er hættara við, að till. háttv. 2. þm. Rvk. (M. B.) fái betri byr; en þó vænti eg, að hann, við nánari íhugun komist að þeirri niðurstöðu að taka suma liðina aftur. Eg sé að komið hefir till. við 22. gr. um að fella 8. lið burtu. Nafn háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) stendur á tillögunni, en það er vegna misskilnings, að því er mér er sagt, enda er hann of góður drengur til þess, að hann færi að flytja slíka till. Aftur á móti mun till. vera fóstur h. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) honum var til þess trúandi. Þessi till. hefir það fram yfir allar hinar, að hún er svo rustaleg. H. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) læðist, eg vil ekki segja eins og rotta, til þess að fá feldan burtu aðeins einn einasta lið, sem varðar landbúnaðinn. Eg veit ekki hvort það er af því, að hann veit að mér er annast um þennan lið, eða hann amast við öllum verklegum framförum. Það hefði líklega orðið annað hljóð í strokknum, ef eitthvað hefði átt að fara að hreyfa við söfnum og draga úr styrknum til þeirra. Annars er það hálf hlægilegt að vilja fella burtu till., sem miða að eflingu nytsamra og arðsamra fyrirtækja, en koma með jafn fáránlega breyt.till og þá, sem sami háttv. þm. hefir flutt, þar sem hann vill skylda alla barnaskóla á landinu til þess að kaupa stóra bók, sem tillögumaður sjálfur hefir verið með að búa til en fáir vilja eiga og enn færri lesa.