15.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (1063)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Einar Jónsson:

Eg er svo heppinn að eg á enga brtill. við frv., en vil þó minnast á einstaka breyt.till. frá öðrum. Verður þá fyrst fyrir till. nefndarinnar um heilsuhælið á Vífilsstöðum. Framsm. (B. Þ.) taldi það óviðeigandi, að landssjóður tæki á sig meiri útgjöld vegna heilsuhælisins en hingað til, og lagði það til, að sjúklingarnir væru heldur látnir borga meira með sér. En mér fyndist sanngjarnara að heldur væri létt en þyngt á sjúklingunum. Menn höfðu upphaflega búist við, að meðgjöfin með sjúklingunum yrði lægri en raun varð á. Fátæklingum er nú næstum því ókleift að vera á hælinu; þeir sem eru á sambýlisstofu verða að borga 550 kr. árlega, hinir 900 kr. En þar að auki hafa sjúklingarnir margvísleg útgjöld fyrir fatnað, ferðakostnað og ýmislegt smávegis, svo að ætla má, að hver sjúklingur verði að borga fast að 1000 kr. eða jafnvel meira. Allir hljóta að sjá, að þetta er ofvaxið fátæklingum og virðist því sanngjarnara að lækka heldur meðgjöfina en hækka. Eg skal bæta því við, að óánægjan með þessa háu meðgjöf er aðallega sprottin af því, að menn hafa veitt því eftirtekt, að heilsuhælinu hafa borist peningar mjög víða að, og geta því ekki skilið í, að sjúklingum skuli vera gerð veran á hælinu svona dýr; enda er mér kunnugt, að ef haldið verður áfram að krefjast svo hárrar meðgjafar, þá hafa margar heilsuhælisdeildir tekið sig saman um að hætta að leggja til hælisins hin ákveðnu árstillög en stofna heldur sérstaka sjúkrasjóði. Þetta gæti orðið hælinu til hins mesta tjóns. En það er góð og gild kenning, að vér eigum að bera hver annars byrðar, og því á landssjóður að hlaupa hér undir bagga til þess að létta á sjúklingunum. Öllum kemur víst saman um, að berklaveikin er hin mesta landplága, er sem fyrst þyrfti að útrýma.

Þá vil eg minnast lítið eitt á hraðskeytasambandið milli Vestmanneyja og meginlands. Eg hygg að eg sé kunnugri ströndinni þar eystra en háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.), sem eg efast um að nokkurn tíma hafi þar komið. Það sem sagt hefir verið um brimhljóðið, hefir verið nægilega hrakið, svo að eg þarf ekki að fjölyrða um það. — Við sjóinn þar austurfrá eru sandar miklir, og mundi síminn brátt sandverpast og vera þannig vel varinn. Lofskeytasambandið er óhentugt Vestmannaeyingum, ekki sízt vegna þess, að þeir hafa mikil viðskifti við búendur á ströndinni beint á móti og þurfa því oft að tala við þá, en það geta þeir ekki, ef loftskeytasambandið verður ofan á. Eg skal játa, að vel getur verið, að loftskeytasambandið gæfi mikið af sér, bæri sig ef til vill eins vel og sími. En ef Vestmanneyjum væri komið í samband við símann, sem liggur héðan austur að Garðsauka, þá vil eg fullyrða að það fyrirtæki mundi gefa af sér miklar og vissar tekjur. — Ein spurning hefir mér dottið í hug. Hér hefir verið mikið talað um, að við þyrftum að koma upp loftskeytastöð, til þess að geta haft þráðlaust samband við skip. Eru það íslenzk skip, sem menn eiga við? Eg hélt ekki, að skipafloti vor væri svo stór, að leggjandi væri í mikinn kostnað hans vegna á þennan hátt að svo stöddu, og óvíst sé, hvort þau hin fáu skip, sem hér eru til hafa efni á að setja loftskeytaútbúning hjá sér innanborðs á nálægum tíma. En ef hér er átt við öll skip yfir höfuð, sem um Atlantshafið ferðast, því ekki að láta gufuskipa- og útgerðarfélög hjálpa til aðkoma loftskeytum á fót? Og rangt finst mér að troða loftskeytasambandi uppá Vestmanneyinga af þeirri ástæðu, þvert á móti vilja þeirra. Eg mun samkvæmt þessu greiða atkvæði með till. nefndarinnar, þó þannig að eigi verði eingöngu miðað við loftskeytasamband, heldur hraðskeytasamband.

Loks vil eg fara örfáum orðum um háskólann. Eg var honum hlyntur á síðasta þingi, og er það að flestu leyti enn þá. En eg vil aðeins vekja athygli á, að þó að háskólinn verði stofnaður 17. júní, þá tekur hann ekki til starfa fyr en í október, og vil eg því leggja til, að háskólakennararnir fái ekki laun fyr. Annað skilyrði vil eg einnig setja: að háskólinn geti fengið húsnæði hér í þinghúsinu. Ef hægt er að fá þessu hvorttveggju framgengt, þá mun eg greiða atkvæði með háskólanum, því að eg álít hann frama- og nauðsynjastofnun fyrir land og lýð.