23.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Jón Magnússon:

Það er að eins stutt athugasemd. Háttv. framsm. (B. Þ.) sagði, að engar sannanir lægi fyrir um, að kona þessi væri fátæk. Það er nú alt af örðugt að sanna slíkt, en eg get þó skýrt frá því, að þegar búi Páls heitins Melsteð var skipt í sumar urðu eftir á pappírnum handa ekkjunni 6—7000 kr., sem stóðu að mestu í kvennaskólahúsinu gamla fullhátt metnu. Og allir vita, að sem stendur er ekki fljótgripið til 6—7000 kr., sem standa í húseign í Reykjavík. Aðrar sannanir eru ekki fyrir höndum. Annars skil eg ekki, hvernig mönnum getur dottið í hug, að kona þessi sé efnuð. Á hverju hefði Páll heitinn Melsteð átt að auðgast, sem alt af lifði við lág laun. Nei. Hún á ekki annað en húsið og fremur lítið af innanstokksmunum og hefir ekki annað að lifa af en eftirlaun þau, sem alþingi veitir henni og hún á satt að segja fulla heimting á.