23.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (1083)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Stefán Stefánsson:

Eg vil að eins geta þess í sambandi við brtill. á þgskj. 281, þar sem farið er fram á 6000 kr. fjárveitingu til að reisa að nýju kvennaskólann á Blönduósi, að fyrir þinginu liggur framboð frá Eyfirðingum um 6000 kr. til kvennaskólabyggingar við Eyjafjörð; höfum við þingmenn sýslunnar afhent fjárlaganefndinni símskeyti um þetta efni, er barst okkur fyrir fáum dögum. Eins og kunnugt er, var þar settur á stofn fyrsti kvennaskóli á Norðurlandi, sem varð að hætta fyrir nokkrum árum vegna fjárskorts, en frá þeim tíma á stofnunin í sjóði fyrir seldar eignir, sem fyllilega nemur þessari upphæð. Einnig býðst sýslan til að leggja fram árlegan styrk til kvennaskólans verði hann aftur reistur þar á stofn, og þá væntanlega fyrir alt Norðurland. Upphæð styrksins tel eg víst að yrði svo rífleg frá hálfu sýslufélagsins, sem það frekast mundi sjá sér fært, og mjög ósennilegt, að nokkurt annað sýslufélag gengi lengra til samkomulags um það atriði en Eyfirðingar, því þeim var mjög ant um skólann og vilja koma honum upp aftur ef mögulegt er. Eg þykist nú mega ganga að því sem vísu, að allir þm. sjái mun á því, hve miklu heppilegri að öll afstaða er fyrir skóla, sem á að vera fyrir alt Norðurland, í Eyjafirði en í Húnavatnssýslu. Eg hafði hugsað mér að koma fram með tillögu í þessa átt á fjárlögunum, en þar sem atkvæðagreiðsla um skylt efni liggur nú fyrir til atkvæðagreiðslu, vildi eg vekja athygli hv. þm. á þessu tilboði Eyfirðinga.