21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (1137)

143. mál, tillögur yfirskoðunarmanna landsreikninganna 1908 og 1909

Jón Jónsson (1. þm. S.-Múl.):

Mér þætti vænt um, ef eg fengi að heyra álit hæstv. ráðherra viðvíkjandi áskoruninni í 8. lið. Eg óska þess af því að mér er talsvert ant um þetta atriði, og er nefndinni þakklátur fyrir, að hún hefir komið fram með tillöguna. Eg álít það ilt, og er viss um, að það getur oft haft slæmar afleiðingar, að reikningar landsins eru ekki hafðir í sama formi og reikningar stórra atvinnurekanda, t. d. verzlunarfélaga, þannig að sérstakur reikningur væri um allar eignir landsjóðs í líku formi. Eg er sannfærður um það, að ýmislegt af vitleysunum og rangfærslunum um eyðslusemi og þess konar, sem oft hefir sést í blöðum og jafnvel hefir verið minst á hér á þinginu, hefðu aldrei komið fyrir, ef landsreikningarnir væru hafðir í venjulegu formi stórra félaga. Eg geri ráð fyrir, að þessar vitleysur sé fram komnar af því, að menn hafa ekki getað skilið reikningana, því að öðrum kosti væri um vísvitandi blekkingar að ræða, sem ekki eru heiðarlegum mönnum ætlandi. Eg vildi mæla með að tillaga þessi yrði samþykt, og þætti vænt um, ef hæstv. ráðherra (Kr. J.) vildi láta í ljósi sína skoðun á þessu atriði.