25.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

12. mál, vantraustsyfirlýsing og ráðherraskipti

Jóhannes Jóhannesson:

Eins og kunnugt er, er eg hvorki í háttv. meiri né minnihlutaflokki á þessu þingi og hafa framsögumenn þeirra hér í þessari háttv. deild því eigi talað í umboði mínu í þessu máli.

Frá því að eg fór fyrst að gefa mig við stjórnmálum, hef eg hallast að stefnu þess flokks, sem hæstv. ráðherra var mikilsmetin máttarstoð í og fyllti eg þann flokk á þingunum 1901—’03—’05 og '07. Svo kom sambandsmálið til sögunnar; þá klofnaði þessi flokkur og eg gat eigi lengur fylgt meiri hluta hans og þá skildu leiðir hæstv. ráðherra og mín.

Eins og ástatt var á þinginu 1909 féll mér ráðherravalið ekki illa og eg gerði mér góðar vonir um stjórn hæstv. ráðherra að ýmsu leyti, þótt eg hins vegar dyldist þess eigi, að hann myndi fá við ýmsa erfiðleika í stjórn sinni að stríða sakir þess, hversu meiri hluta þeim á þinginu var háttað, sem hann átti við að styðjast. En eg hef orðið fyrir ærnum vonbrigðum og það svo, að eg verð því miður að fallast á margar aðfinningar framsm. meiri hlutans

(B. Sv.), og næstum allar aðfinningar framsögum. minni hlutans (J. J.), sem fram hafa komið við stjórn hæstv. ráðherra.

Eg hef orðið fyrir þeim vonbrigðum, að sjá þennan mann, sem eg mat svo mikils, ekki að eins gera sig sekan í öllu því sama, sem hann, manna mest og kröftuglegast, vítti hjá fyrirrennara sínum og sumt ekki að ástæðulausu, að því er mér virtist, heldur jafnvel fara þar langt fram úr honum.

Eg vil ekki gefa tilefni til neinna æsinga í þessu máli, því orðasennur eins og þær, sem áttu sér stað í háttv. Ed. í fyrra dag, eru ekki sóma þingsins samboðnar, og ekki vil eg heldur að nauðsynjalausu draga menn og málefni inn í þessar umræður; fyrir því nefni eg ekki nú þegar dæmi til þess að rökstyðja með það, sem eg hef sagt, en á þeim skal ekki standa, ef krafist verður.

Eg ætla nú ekki að fara að að rekja stjórnarferil hæstv. ráðherra og finna að honum; það er búið og eg læt mér nægja skírskotun mína hér að framan; en framkomu hans í eina átt verð eg að minnast á, því að hún hefir ekki verið nægilega vítt áður, hvorki í ritum né í umræðunum í dag, og á eg þar við framkomu hans gagnvart embættis stétt þessa lands.

Hæstv. ráðherra hefir nefnilega freklega misboðið þessari stétt, bæði í ræðum og riti, einkum í blaði sínu »Ísafold«. Hann hefir reynt til þess að koma þeirri trú inn hjá alþýðu, að embættismennirnir væru menn, sem eingöngu hugsuðu um eigin hagsmuni, sætu á svikráðum við alþýðuna og reyndu að kúga hana og gera sér undirgefna og að hann, — hæstv. ráðherra — yrði að heyja baráttu við þessa stétt til þess að verja alþýðuna.

Þetta er ljótt! Þetta er ósæmilegt! Æzti embættismaður landsins slær á þá lægstu strengi í manninum — öfundina og tortryggnina — til þess að reyna að hnekkja áliti og áhrifum samverkamanna sinna og gera þeim ókleift að gegna starfi sínu, en afla sjálfum sér skrílhylli, því að aðrir en hinn aumasti skríll láta ekki ginna sig með þessum brellum. Meðalgreindir og upplýstir alþýðumenn láta eigi blekkjast af þeim. En það er jafnframt stórhættulegt fyrir þessa þjóð. Tækist að svifta hana tiltrúnni til og virðingunni fyrir þeim, sem settir eru til að gæta laga og réttar í landinu, leiddi það til óstjórnar. Auk þess er það, sem betur fer tilhæfulaus hégómi, svo að eg noti orð, sem hæstv. ráðherra er tamt að nota.

Embættisstétt þessa lands er skipuð heiðursmönnum, sem ekki vilja vamm sitt vita, og sérstaklega vil eg taka það fram, að sýslumennirnir, sem sérataklega hefir verið beinst að, eru valinkunnir sæmdarmenn, sem njóta virðingar og trausts þeirra, sem eiga saman við þá að sælda og til þekkja. Og þó nú svo væri, að embættisstéttin væri þannig skipuð, að alþýða manna ætti í vök að verjast gegn henni, þá væri h. ráðherra ekki sá maður, sem treystandi væri til þess, að halda á máli alþýðunnar í því efni; til þess skortir hann bæði þekking og þor. Hvaða ótti ætlið þið t. d. að sýslumönnum standi af eftirliti þess manns, sem á eftirlitsferðum sínum verður að reiða í vasa sínum skrá útbúna af aðstoðarmönnum sínum, yfir þær bækur, sem sýslumenn eiga að halda? Hvert skyn myndi sá maður bera á það, hvernig bækurnar eru haldnar?

Þá hefir hann og sýnt það, að hann hikar sér við að láta lögin ná jafnt til allra, þótt margt hafi hann talað og látið skrifa um hið gagnstæða. Því til sönnunar vil eg benda á það, að þrátt fyrir það, þótt hann hafi sjálfur dæmt bankastjórnina fráviknu seka í »margvíslegri, megnri og óafsakanlegri óreglu í starfsemi sinni í stjórn bankans og frámunalega lélegu eftirliti með honum« og símað þann dóm sinn út um land alt og til útlanda, hefir hann þó ekki látið hana sæta sakamálshöfðun, sem skylda hans var, ef dómurinn var réttur, því eftir 144. gr. sbr. 145. gr. í hinum almennu hegningarlögum þurfa eigi nándar nærri svona miklar sakir að vera fyrir hendi til þess að áfellisdómur verði á þeim bygður.

Hvers vegna átti sakamálshöfðun sér eigi stað hér?

Efast nokkur um, að hæstv. ráðherra hafi verið sannfærður um réttmæti dóms síns?

Nei, sannleikurinn er sá, að af því að hér áttu í hlut embættismenn, sem voru búnir að sýna það, að þeir tækju ekki þegjandi við því, sem að þeim var rétt brast hæstv. ráðherra þor til að láta lögin ná yfir þá. Berið þetta saman við sakamálðhöfðunina í Tálknafirði, sem háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) mintist á áðan.

Eg segi eins og háttv. framsögumaður minni hlutans (J. J.): Þótt ekki væri annað en þetta, væri það næg ástæða til þess að greiða þingsál.till. atkv.

Eg er nú orðinn langorðari en eg ætlaði mér og skal því láta hér staðar numið.