20.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

1. mál, stjórnarskrá Íslands

Skúli Thoroddsen:

Eins og kunn­ugt er samþykti deildin 1909 áskorun til stjórnarinnar þess efnis, að hún legði fyrir næsta þing frumv. um breytingar á stjórnarskránni, og þingmenn væntu þess því, að stjórnin mundi verða við þessari áskorun; en þetta brást, sem kunnugt er. Á flokksfundi sjálfstæðismanna kom það því til tals þegar fyrir þingbyrjun, að sjálfsagt væri að koma sem fyrst fram með frumv. til stjórnarskrárbreytingar, og var þess þá getið, að 3 þingm. hefðu í smíðum frumv. til stjórnarskrárbreytingar, og eru nú tveir þessara þm. flutningsmenn frv. þessa, sem hér liggur fyrir.

Frumv. þetta er þannig komið fram sem frumv. frá 3 þingm., en ekki sem frumvarp frá sjálfstæðisflokknum, enda hafði hann engin tök á því að íhuga það, áður en það var borið fram, og hafði eigi séð það. — En aðalatriðið er, að frumv. þetta er nú komið inn á þingið, og má þá breyta því, sem þurfa þykir. Eg tek þetta fram vegna þess, að eg er því mótfallinn, að blandað er saman í frumv. stjórnarskrárbreytingum og sambandslagaákvæðum, sem orðið gætu frumv. að falli, er staðfestingar skal leitað, enda tel eg víst, að það, sem fyrir flutningsm. frumv. hefir vakað, hafi verið það, að frumv. sýndi stefnuskrá þeirra, en eigi hitt, að þeir vilji á neinn hátt stuðla að því, að sambandslagaákvæðin verði nauðsynlegum breyt­ingum á stjórnarskránni að falli.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) heldur því fram, að vísa beri frumv. þessu frá, en því get eg alls ekki verið samdóma, þar sem eg fæ eigi betur séð, en að fyrirsögn þess fullnægi fyllilega kröfum þeim, er gerðar eru í þingsköpunum, að því er til breytinga á stjórnarskránni kemur.