25.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

17. mál, stjórnarskipunarlög

Ráðherrann (B. J.):

Eg hefi gert grein fyrir því áður, hvers vegna eg kom ekki fram með stjórnarfrumvarp um þetta. Eg verð að segja það afdráttarlaust, að mér líkar hvorugt af þeim frumv., sem fram eru komin, og hefi eg hið þriðja í smíðum, er eg hefi von um að borið verði upp á þessu þingi, til þess að eg hafi eitthvað, sem eg geti fylgt. Verður svo reynt að fá það samþykt og rjúfa þá þing, enda er sá vænstur, þar sem það er nú orðið svo margklofið og vinglað, sem allir vita. Þetta frumvarp hefði líklega verið langt komið, ef eg hefði haft betri tíma og meiri frið til þess að vinna að því, enda mun enginn stór bagi að því, með því að það hefði hvort sem var orðið að bíða lengur en svo í nefnd.