03.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Framsögumaður minni hlut­ans (Jón Þorkelsson):

Við eigum hér nokkrar breytingartillögur, eg og fleiri þingmenn á blaði. Höfum við þó farið svo vægt í sakirnar til samkomu­lags, sem við höfum getað og reynt að raska sem minstu. Aðalatriðin eru um kosning til efri deildar og um deildaskipunina, svo og um kosningarrétt hjúa. Þessi tvö höfuðatriði eru aðalágrein­ingsefnin.

Efri deild hefir breytt skipun efri deildar frá því sem hér var samþykt. Skulu nú 10 kosnir með hlutfallskosningu um alt land, en 4 af sameinuðu þingi úr tölu hinna annara þingmanna.

Af þessari tölu eru 6, sem koma í stað hinna konungkjörnu þingmanna. En konungkjörnir þingmenn hafa reynst og reynast enn stýfla fyrir störfum þingsins á ýmsa lund, enda hefir margsinnis verið farið fram á, að þeir yrðu afnumdir. Svo var á þinginu 1889. Var þá farið fram á, að til efri deildar skyldu kosnir 12 menn, 3 af fjórðungi hverjum, en það féll þó þá með eins atkvæðis mun. Reynslan hefir og sýnt, að það var óhentileg þvergirðing fyrir framgang mála, að konungkjörnu þing­mennirnir væri helmingur efri deildar. Því var hér um árið bætt við tveim þjóðkjörnum þingmönnum, svo að tveir þjóðkjörnir væri þó fram yfir helming deild­armanna. Þingið í ár hefir sýnt að þetta er þó ekki einhlítt. Við leggj­um nú til, að helmingur efri deildar skuli kosinn með hlutfallskosningu um alt land, en helmingur úr tölu hinna annara þingmanna í sameinuðu þingi. Þeir þingmenn, sem kosnir eru fyrir alt landið, skulu og kosnir til 6 ára, og sömuleiðis varaþingmenn. Hinn háttv. meiri hluti heldur því fram, að það mundi koma í veg fyrir hreppapólitík, ef öll efri deild væri kosin fyrir alt landið. Þar til er því meðal annars að svara, að þeir þingmenn mundu sérstaklega hafa fylgi í einu eða tveim­ur kjördæmum, og mundu því finna skyldu hjá sér til að vinna sérstaklega fyrir þau. Enn er margt fleira, sem við getum ekki fallist á. Það hefir reynsl­an sýnt, að efri deild hefir verið sem stýflugarður og er það enn, því hún hefir í ár skorið niður ýms nauðsynjamál, sem þurft hefðu fram að ganga, svo sem er um lög þau, er miða að því að auka tekjur landssjóðs; þau hafa mætt þar og mæta enn mótspyrnu og morði.

11. grein frumvarpsins lýtur að kosningarréttinum. Þar eru vistráðin hjú útilokuð frá kosningarrétti til alþingis, en þó má breyta því með lögum. Aft­ur á móti hafa lausamenn og flangrarar kosningarrétt, og dylst okkur, hvað með því mælir frekar.

Það er enn annað, sem við getum heldur ekki felt okkur við, en það er að nokkur munur sé gerður á kosningarrétti til Ed. og Nd. Það stendur í þessu frv., að kosningarrétt til Nd. skuli allir 25 ára gamlir menn hafa, en til Ed. að eins þeir, sem 30 ára eru orðnir. Við sjáum ekki neina ástæðu til þess að vera að gera þennan mismun. Hafi menn vit til þess að kjósa til Nd., þá virðist óhætt að sleppa þeim við Ed. líka. Ennfremur höfum við leyft okkur að gera ákvæðin um kjörgengið nokkuð skýrari. Hér í deildinni var það sam­þykt, að eitt af kjörgengisskilyrðunum skyldi vera það, að viðkomandi hefði ver­ið heimilisfastur hér á Íslandi að minsta kosti seinasta árið fyrir kosningu. Hv. Ed. hefir nú breytt þessu ákvæði svo, að þetta er ekki orðið nauðsynlegt skilyrði. En okkur virðist það fullnauðsynlegt að svo sé, og höfum því komið fram með brtill. um það efni. Í stjórnarskránni nú er þetta ákvæði svo, að eitt af kjörgengisskilyrðum er, að viðkomandi hafi átt heimili í löndum Danakonungs í Norðurálfu síðustu 5 árin. Það virðist ekki meiri ástæða til þess að miða við veldi Danakonungs en önn­ur lönd, en hv. Ed. hefir nú rýmkvað þetta svo, að hver maður er kjörgengur, sé hann fæddur hér á landi, þó að hann hafi farið héðan af landi ársgamall og hafi allan sinn aldur verið kramari úti í Kaupmannahöfn eða vestur í Ameríku. Hann getur samt setið á alþingi. Við hv. þm. Dal. (B. J.) teljum sjálfsagt að halda fast við það, sem samþykt var hér í deildinni áður.

Þá hefir meiri hluti nefndarinnar komið sér saman um það, að láta þá menn, sem eru utan þjóðkirkju og ekki borga til neins safnaðar, gjalda tilsvar­andi upphæð til háskólans, eins og þeir segja. Við viljum hafa það ákveðnara og láta gjaldið renna í háskólasjóð. Hann er flestum kunnugur, og við vilj­um hafa það skýrt tekið fram, hvað gert verði við féð.

Þá höfum við tekið upp aftur ákvæði samhljóða því, sem samþykt var hér í deildinni, að þegar breyting verði gerð á sambandi Íslands og Danmerkur, þá skuli það borið undir alþjóðaratkvæði, en meiri hluti nefndarinnar vill fara með það eins og stjórnarskrárbreytingu. Við viljum orða greinina eins og hún var samþykt hér, en ekki eins og meiri hlutinn vill nú.

Þó að við höfum ekki komið með fleiri brtill., þá er svo langt frá, að þess væri ekki brýn þörf. Enda þótt brtill. okkar verði samþyktar, sem eg vona, þá höfum við samt hvergi nærri farið eins langt og við ætluðum okkur: T. d. er það ætlan mín og margra, að heppilegast væri að hafa svo fáment þing sem þetta óskift, en í öllum flýtinum og tímaleysinu nú unnust ekki stundir til að koma með svo víðtæka efnisbreytingu. Eg felli mig illa við till. meirihl. í deild­arskipununum og hygg, að fólk úti um land mundi heldur kjósa að halda þeim konungkjörnu með öllum þeirra ann­mörkum, en þetta fyrirkomulag. Það verður að leggja niður 4 kjördæmi, og eg hygg, að menn verði þinginu ekkert þakklátir fyrir það. Það er hægt að gizka á, hvaða kjördæmi þetta muni verða. Eg get hugsað mér eitthvað af þessum: Vestmannaeyjar, Seyðisfjörður, Skaftafellssýslurnar, Norður-Þingeyjarsýsla, Strandasýsla, Dalasýsla, Borgarfjarðar- eða Mýrasýsla yrði væntanlega lagt saman við önnur; nefna má og Ísafjörð. Annars er ekki nákvæm­lega hægt að reikna út allar þær breyt­ingar, sem verða. En svo mikið þykir mér sennilegt, að mönnum mun mislíka, að mjög mörg kjördæmi sé lögð niður og alt þetta fyrirkomulag, sem sett er á að fólkinu fornspurðu. Eg hygg því, að varhugavert sé að samþykkja þessar till. meiri hlutans. Það leiðir ekki til annars en þess, að frumv. verður umsteypt á aukaþinginu mest, og hvað er þá unnið við það, sem við erum að banga saman nú?