21.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (1294)

80. mál, aukatekjur landssjóðs

Framsögum. (Ólafur Briem):

Sú eina brtil., sem fram hefir komið, er á þskj. 252 og fer fram á það að fella aftan af 55. gr. það ákvæði, að af skipum frá öðrum löndum í veldi Danakonungs, sem koma hingað eingöngu til fiskiveiða, skuli gjalda 25 aura af hverri smálest á fyrstu höfn, er þau koma á.

Afleiðingin af því, að þetta ákvæði félli burt hlýtur að verða annað hvort sú, að þessi skip, sem aðallega eru færeysk fiskiskip, sleppa alveg við að greiða nokkurt gjald, ellegar að þau verður að heimfæra undir lög um fiskiveiðar útlendinga frá 17. desember 1875 og afgreiðslugjald að greiðast eftir 1. gr. laga 2. febr. 1894 um aukatekjur, dagpeninga og ferðakostnað sýslumanna og bæjarfógeta o. fl. Í þessum lögum er ákveðið, að útlend skip, þar með er átt við skip, sem koma frá öðrum löndum en Danmörku og Færeyjum, skuli gjalda 10 au. í afgreiðslugjald af hverri smálest í hvert skifti, sem þau koma frá útlöndum, og 5 au., þegar þau koma á aðrar hafnir í sömu ferð, og þetta gjald rennur til lögreglustjóra eða skiftist jafnt milli lögreglustjóra og hreppstjóra, ef hreppstjóri skoðar skipsskjölin fyrir hönd sýslumanns. En hvor sem afleiðing breytingarinnar yrði, þá er nefndin brtill. mótfallin. En eftir því sem nefndinni hefir skilist á flutningsm., þá hefir það ekki verið ætlun hans að raska efni greinarinnar heldur aðeins bæta orðalagið. En nú er þetta ekkert nýtt. Þetta orðalag hefir áður verið haft í mörgum íslenzkum lögum og nefndin á ekki sök á því, þótt það sé ekki sem viðfeldnast. Af þessari ástæðu getur nefndin ekki aðhylst brtill.