29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Jón Þorkelsson:

Það hefir nú verið sagt hér margt heldur þarft orð núna, svo að eg get sparað mér að halda langa ræðu. Mér dettur í hug, þegar eg lít á brtill. á þgskj. 364: Svo bregðast krosstré sem önnur tré. Það sýnir sig vel, hve mikið er byggjandi á þeim orðum margra þm., að vandræðalaust sé fyrir Reykjavík að ganga í landssjóðinn, þar sem svo margir þm. séu búsettir hér. Eg er hræddur um, að hv. 2. þm. Árn. (S. S.) hafi hugsað sig búsettan austur í sýslum, þegar hann samdi þessar brtill., og hafi ekki séð hingað suður yfir heiði. Það eru nú komnar fram allmargar till. í þessu máli. Fyrst var stungið upp á 800 þús. kr. styrk úr landssjóði, nefndinni þótti þetta fullhátt og færði það niður í 600 þús. kr. Þriðja till. vildi, að landssjóður legði fram 600 þús. kr., en fengi hluta í ágóðanum í samræmi við tillagið. Þá er fjórða tillagan frá háttv. 2. þm. Árn. (S. S.), um að landssjóður leggi fram 400 þús. kr. skilyrðislaust, en ábyrgðin sé færð niður í 800 þús. kr., úr 1200 þús. kr. Þó vill hann, að bærinn fulltryggi þessar 800 þús. kr., þegar hann er búinn að útvega sér 400 þús. kr. annarsstaðar frá og láta beztu veðin upp í það. Ef ábyrgðin á að vera fullgild, þá er engin þörf að leita til landssjóðs, það væri þá ekki skotaskuld, að leita til ýmissa peningastofnana. En bærinn leitar til landssjóðs, af því að það er sjálfsögð skylda hans að hlaupa undir bagga. Hér er ekki verið að tildra upp einhverju smáverki, sem hægt væri að heimta, að bærinn einn gæti gert. Það hefir sýnt sig ljóslega, að hann hefir ekki legið á liði sínu til framfarafyrirtækja og ýmsra stórvirkja nú hin síðari ár. Bærinn hefir komið á vatnsleiðslu, gaslýsingu o. fl. án þess að fara fram á eyristillag úr landssjóði. Þessi stórvirki voru almenn verk, þótt stórvirki sé, og ekki við annað að stríða en grjótið í jarðveginum, en nú á að fara að vinna að mannvirki, sem er öllu torsóttara. Hér á að fara að stöðva afl harðfengra höfuðskepna. Allir vita hvílík vandræði það hafa verið og eru að skifta við Reykjavík vegna hafnleysisins. Það verður dýrara að reka hér verzlun, heldur en víða annarsstaðar á landinu, vegna þessa. Það er alkunnugt, að skip hafa farist hér á höfninni eða rekið af henni í strand. Hvað lengi á höfuðstaðurinn að búa við hafnleysið? Að neita Reykjavík um höfn, er svo mikil fjarstæða, að það væri ekki öllu meiri fjarstæða að segja, að ekki væri annað fyrir hendi, en að flytja höfuðstaðinn að höfn. Það er harðleikið, að þar sem viðskiftin eru mest, að þar skuli menn eiga að búa við bera og opna strönd.

Háttv. 2. þm. Rvk. (M. B.), háttv. þm. Dal. (B. J.) og háttv. þm. Vestm. (J. M.), hafa ljóslega sýnt fram á það, hvílíkt gagn yrði að góðri höfn í Reykjavík fyrir land alt. Allir vita, að magnmestu héruð þessa lands, alt frá Skeiðarársandi og vestur að Breiðafirði, standa í nánu verzlunarsambandi við höfuðstaðinn, og yrði þessum héruðum því ómetanlegt gagn að höfninni. Það er alstaðar siður, að hið opinbera hlynni sem mest að höfuðstað hvers lands. — Það eru mörg dæmi til, að landssjóður hefir lagt stórfé til hafnbóta á útkjálkum landsins, t. d. hefir Blönduós, sem í raun og veru er engin höfn, notið góðs af þessu. Sama má segja um Akureyri og Stykkishólm. Þar lagði landsjóður ¼ á móti bæjarsjóði, til að gera mannvirki, hið sama og nú er í ráði, að samþykt verði hér. Það er líka annað þýðingarmikið atriði, sem menn verða að gera sér fullkomlega ljóst. Hafnargerðin getur haft og á að hafa í för með sér, að peningarnir, sem í fyrirtækið eru lagðir, renni ekki til annara en landsmanna sjálfra. Mestur hluti efnisins er tekinn undan fótunum á okkur. Hér er um allt annað að ræða, en þegar er verið að hrófla upp húsafjalaköttum, sem efnið í er keypt dýrum dómum frá útlöndum. Í höfnina færi lítið af útlendu efni, vinnan svo sem öll ætti að verða í höndum landsmanna og peningarnir rynnu því í vasa þeirra.

Eg tók eftir því, að háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) sagði, að þetta mál væri eigi dautt, þó málið félli á þessu þingi, og svo mætti koma því á fjárlögin. Þetta er rangmæli. Ef höfnina á að byggja, nægir ekki að eins heimild á fjárlögunum, heldur þarf ákveðin lagafyrirmæli, meðal annars um það, að menn séu skyldir að láta af höndum mannvirki og lönd, sem þurfa til hafnargerðarinnar.

Breyt.till. háttv. þm. Dal. (B. J.) er meinlaust orðagaman, sem ekkert skaðar, þó þær verði samþyktar.

Breyttill. háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) á að fella, því verði hún samþykt, er málið ónýtt.