01.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

25. mál, vegamál

Eggert Pálsson:

Eg skal ekki eyða mörgum orðum til að svara háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.), ræða hans var þessi sami gamli sónn um það, að kaupstaðirnir þurfi ekki neitt samband við aðra landshluta, þeir séu ávalt og í öllum efnum sjálfum sér nógir. En hvernig háttv. þm. fer að sanna slíkt, er mér með öllu óskiljanlegt, og furðar mig á, að hann jafn skýr, gamall og reyndur maður skuli láta sér slíkt um munn fara. Háttv. þm. sagði, að Reykjavík hefði nægilegt uppland. En eg get ekki séð, að svo sé; eg held að lífið yrði ekki blómlegt hér, ef Reykjavík ætti eingöngu að standa í sambandi við nærsveitirnar, jafn berar og gróðurlausar sem þær eru, án þess að geta notið samgangna eða viðskifta við aðra hluta landsins. Þetta hafa menn líka fundið og þess vegna er á ári hverju varið, ekki síður Reykjavíkur vegna en annara landshluta, svo tugum þús. kr. skiftir til þess að samband geti átt sér stað á milli hennar og landshlutanna eftir sjóleiðunum. En slíku sambandi er ekki hægt að koma við á milli hennar og þeirra sýslna, sem hér er um að ræða, svo að það hlýtur að vera á landi. Og þetta samband er ekki síður Reykjavík en sjálfum héruðunum nauðsynlegt. Þetta ætti háttv. þm. að vilja viðurkenna. En þótt hann ekki sjái það nú, þá mundi hann þó sjá það, ef höfn yrði bygð í Þorlákshöfn, með járnbrautarspotta til Ölfusárbrúar, að Reykjavík væri ekki sjálfri sér nóg; þá mundi að líkindum koma annað hljóð í strokkinn og þm. telja samband við austursýslurnar nauðsynlegt fyrir Reykjavík. Og væri honum það ekki láandi, þótt ætlast hefði mátt til, að hann hefði séð það áður.