01.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

27. mál, Maríu- og Péturslömb

Flutningsmaður (Jón Jónsson N.-Múl.):

Frumvarp þetta er ekki neitt nýmæli. Þetta mál hefir verið oft flutt hér á þingi, en aldrei náð fram að ganga nema á aukaþinginu 1886, en þá synjaði stjórnin því staðfestingar, eins og fleiri málum um þær mundir, þótt þörf væru.

Það sem sérstaklega mælir með frv. þessu, er að fóðurskylda þessi hvílir eingöngu á 5 sóknum á öllu landinu, og þó ekki á öllum býlunum í þessum sóknum. Hér er því um herfilegt misrétti að ræða í samanburði við aðra landsmenn. Þá er nafnið sjálft, Maríu- og Péturslömb, ekki sem viðfeldnast. Virðist nokkuð úrelt og ósamboðið þessum tíma að láta þessa fáu bændur fóðra lömb fyrir Pétur postula og Maríu mey. Nú er sérstök ástæða til að flytja frv. um afnám þessara lambsfóðra, þar sem á síðasta þingi var með lögum um sóknargjöld afnumin fóðurskylda á heytollum. Margir litu svo á, að með þeim lögum væru Maríu- og Péturslömb úr sögunni. En landsstjórnin úrskurðaði, að svo væri ekki. Út af þessu hefir óánægjan brotist út á ný og liggja nú fyrir þinginu áskoranir um að afnema þetta.

Ýmsar getgátur eru um, hvernig þessi lambsfóður séu til orðin, en líklegast er að þau hafi átt að vera endurgjald fyrir góðgerðir, sem menn á þessum býlum hafa þegið hjá hlutaðeigandi prestum, en svo hafi þetta loðað við síðan og komist í hefð.

Í frumvarpi þessu er ætlast til að landssjóður borgi fóðrin, meðan prestar þeir, er nú njóta þessara tekna, eru í embætti, en svo falli gjaldið algerlega niður. Hér er að eins um tæpar 300 kr. að ræða, er landssjóður þyrfti að greiða árlega um nokkur ár. Er það smáræði, og vona eg að háttv. þingdeildarm. vaxi það ekki í augum. Óska eg að málinu sé vísað til 2. umræðu án nefndar.