07.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

46. mál, lækningaleyfi

Björn Kristjánsson:

Háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að eg vildi leyfa skottulæknum að hafa sig inn á alþýðu. En í þessum efnum fer alþýðan eingöngu eftir sinni eigin reynslu, ef skottulæknunum tekst að vinna traust hennar, þá leitar hún þeirra, annars ekki. Slíkt hið sama má raunar segja um hina lærðu lækna. — Þótt hinn háttv. þm. fyrirlíti »sprittblöndu«, sem hann mun kalla smáskamtalyf, þá hefir hún þó oft komið að gagni, það get eg vitnað af eigin reynslu. Það er sjálfsagt, að eg hefi ekki lesið jafnmikið um lækningaefni eins og þeir Guðmundur Björnsson og Guðmundur Magnússon, en hafa þeir nokkra praktiska þekkingu, hvað þetta snertir? Slíkar lækningar hafa ekki áður tíðkast, það er fyrst nú á síðustu tímum, að menn eru farnir að nota þær.

Háttv. flutningsm. (J. M.) tók fram, að í frv. fælist ekki bann gegn skottulækningum, og það er satt, að þær eru ekki beinlínis bannaðar; en frv. heimilar landlækni slíkt vald, að skottulæknar eiga alt undir hans náð, og ef hann vill ofsækja þá, eins og einn landlæknir af öðrum hafa gert í marga liði, geta þeir enga vörn sér veitt. Frumv. tekur þannig fram fyrir hendur alþýðu alveg að ástæðulausu. Það er rétt, að gott er að hafa eitthvert eftirlit í þessu efni, og er ráð fyrir því gert í lögum um skottulækningar frá árinu 1884. Sektarákvæðunum í þeim lögum hefir sjaldan verið beitt, af því eigi hefir verið ástæða til þess.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) gerði lítið úr christian science; eg hefi sjálfsagt ekki slíka þekking á þeirri hreyfing, sem hinn háttv. þm., en eg veit að margir hafa aðhylst þá lækningaaðferð, og sýnir það, að hún hefir orðið einhverjum að liði. (Jón Ólafsson: Það eru trúarbrögð!). Hann sagði það ennfremur samkomulag meðal fylgismanna hreyfingarinnar, að þeir mættu ekki leita læknis, en það sýnir ekki annað en að þeir hafa fult traust á þessari aðferð.

Háttv. þm. mintist á »Grasaguddu«, sem væri hér í bænum. Já, það er satt, að þrátt fyrir að hér eru góðir læknar, er hennar iðulega vitjað. Hún hjúkrar og heldur við þeim sjúklingum, sem aðrir læknar ekki hafa getað hjálpað, og að minsta kosti gerir hún það gagn, að hún gefur sjúklingunum ró, og er það ekki lítils virði.

Háttv. þm. hélt, að eg vildi hafa »referendum« í þessu máli. Já, eg vil kannast við, að eg álít að þetta mál snerti alþýðu mjög mikið, og ef þetta frumv. yrði lagt fyrir kjósendur, er eg ekki í vafa um, að mikill meiri hluti yrði á móti því.

Loks lét hinn háttv. þm. í ljós hræðslu um það, að það mundi ekki verða alþingi til sæmdar, að eg yrði kosinn efstur á blaði í þessa nefnd, og að það mundi verða frv. til falls. Eg skal ekki þrátta um það, en vil að eins benda á, að eg var ekki formaður nefndarinnar, sem fjallaði um þetta mál á síðasta þingi, og er því ekki mér um að kenna, þó að málið sofnaði í nefndinni þá.