26.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

46. mál, lækningaleyfi

Jón Magnússon:

Það virðist ekki þörf að ræða mikið meira um þetta mál, báðir partar hafa nú fært öll þau rök, sem þeir hafa fundið, hvor fyrir sínum málstað. En það er að eins viðvíkjandi nokkrum orðum í ræðu háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) að eg stóð upp. Mér fanst hann ekki fara alveg rétt með eitt ákvæði frv., þegar hann var að mæla á móti því. Hann virtist halda það, að nefndin ætlaðist til þess, að það kæmi undir dóm landlæknis eins, hvort smáskamtalæknar, sem hafa drýgt einhverja óhæfu, mættu halda áfram lækningum. En því er alls ekki svo varið. Nefndin hefir álitið það rétt, að landlæknir kvæði á um þetta fyrst til bráðabirgðar, síðan væri málið borið undir stjórnarráðið og ef smáskamtalæknirinn væri ekki ánægður með úrskurð þess, þá gæti hann leitað aðstoðar dómstólanna. Réttur smáskamtalækna virðist því að fullu trygður með þessu ákvæði. Eg get ekki skilið, að háttv. þm. ætlist til þess, að smáskamtalæknar geti óátalið drýgt hvaða óhæfu sem er og megi halda því áfram með lækningaatvinnu sinni, en lærðir læknar, sem kannske hafa mikið minna til unnið, verði að sæta ábyrgð fyrir það, og missi lækningaleyfi sitt. Þetta misrétti, sem háttv. þm. var að tala um, hlýtur að koma af því, að hann hefir ekki lesið till. nefndarinnar nógu vel.

Annars hefir nefndinni komið saman um, málsins vegna, að halda fast við brtill., jafnvel þó eg fyrir mitt leyti verði að kannast við það, að meðmæli þau, sem komið hafa með frv. óbreyttu séu á fullum rökum bygð. En það er ekki altaf hægt að fá það, sem æskilegast er. Maður verður að sætta sig stundum við það, sem lakara er, ef hitt er ekki framkvæmanlegt. Það gæti komið fyrir, að frumv. næði ekki fram að ganga, ef breyt.till. væru feldar burtu, en það er í sjálfu sér svo mikið nauðsynjamál, að eg vil ekki vegna þessa stofna því í hættu.