13.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1620)

67. mál, réttur kvenna

Jón Þorkelsson:

Það lítið eg heyrði af ræðu háttv. flutnm. (H. H.) var það, að hann hefði borið frumv. fram, ekki fyrir fólkið, heldur fyrir eina konu, líka það, að stúlka sú, sem eg nefndi, hefði í stjórnartíð hans altaf notið námsstyrks. Jæja, það sýnir fremur gott hjartalag hans, heldur en hitt, hvað samkvæmt lögum það var gert. Hann sagði og, að ef konur legðust í barneignir og gifting­ar, mundu þær ekki gegna embættum. Það ákvæði vantar alveg í frumvarpið og yfirleitt er það svo lélega og fljótfærnislega frá því gengið, að það þarf stórra leiðréttinga við. Eg vil samt ekki vera að angra háttv. flutnm. (H. H.) með nefnd, en áskil mér rétt til að koma með breyt.till. við 3. umr. Eg vil að frumv. fari vel úr hendi, að við ræðum það með rökum og skynsemd, og tök­um því ekki einsog kópandi orðlausir glópar. Þó hér sé um hitamál að ræða, verður að líta á það með stillingu og viti og eg veit, að greindar konur sjá, að eg hefi hér talað með það fyrir aug­um að rýmka rétt þeirra, en ofbjóða eigi kröftum þeirra með þungum skyldum, sem yrði þeim og landslýð öllum til ógagns.