22.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (1628)

67. mál, réttur kvenna

Jón Þorkelsson:

Eg fer að halda, að eg sé betur að mér í kirkjulögum og kristnirétti en 1. þm. Eyf. (H. H.). Það er bannað frá elztu öldum kristninnar, að konur hafi nokkurt prédikaraembætti á hendi. Páll postuli, höfuðgrundvall­ari kristindómsins, býður að konur skuli halda sér saman í kirkjunni og stein­þegja í söfnuðinum. Kaþólska kirkjan hefir og haldið það strangt og heldur enn, að kvenmenn megi ekki klerkar vera, hvorki æðri né lægri palla. Og lúterska kirkjan hefir tekið það í arf, að konur megi ekki vera prestar, og hing­að til hefir aldrei verið vikið frá þeirri reglu. Ef konur ættu að lögum að vera prestar hér, þá merkir það í rauninni ekki annað en að lútemka kirkjan gæti ekki verið þjóðkirkja lengur hér á landi. En sá er enn galli þar á, að slíkt get­ur ekki orðið, nema með því móti að breyta stjórnarskránni. Ef þessi lög ná staðfestingu konungs, þá er þar með staðfest stjórnarskrárbrot. Þetta hefir og kennimönnum efri deildar verið ljóst þeim, er í nefnd voru kosnir þar um þetta mál, því að ýmsar breytingartillögur þeirra við frumv., sem að vísu féllu, lutu einmitt að því að undanskilja konur frá prestsembætti.

Frumvarp þetta er svo athugavert, að það er varla vansalaust fyrir deildina, ef hún lætur það fara frá sér, eins og það er, enda er það víst lítt yfirvegað af flestum deildarmönnum. Máli þessu hefir verið hraðað svo mikið og svo mikið blint ofurkapp á það lagt, að maður skyldi halda, að það væru Good-Templ­arar einir, sem hér eiga hlut að máli.