17.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

84. mál, færsla þingtímans

Björn Kristjánsson:

Af umræðum þeim, sem fram hafa farið um þetta mál, er sýnilegt að mikill ágreiningur er um það, og þegar svo á stendur, virðist fylsta ástæða til að setja það í nefnd. Og þó að frumvarpið sé stutt, þá þarf það grandgæfilegrar íhugunar við.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J) álítur heppilegast að alþingi komi saman fyrri part vetrar, í nóvember, en eg er honum ekki samdóma í þessu atriði, því að auk þess sem nefndur tími væri óhentugur fyrir stjórnina, sem alls eigi gæti verið búin að þýða frumvörpin og að fá þau samþykt fyrir árslok, eru, eins og háttv. 2. þm. Hún. (B. S.) tók fram, mörg rök fyrir því, að heppilegast er, að þingið sé haldið á sumrin. Það eru ýmsar stéttir fleiri en kennarar útilokaðar frá þingsetu á veturna, það er einnig t. d. læknastéttin. Læknar eiga næstum ómögulegt með að fá neinn í staðinn fyrir sig á veturna, en aftur á móti geta þeir á sumrin fengið læknaskólastúdenta til þess að gegna störfum sínum fyrir hæfilega borgun. Það er ranglátt að útiloka þannig heilar stéttir frá þingsetu, eins og t. d. læknana. Og eg vil taka fram, að eg álít að ekki væri það óhollara fyrir þingið, þó embættismönnum utan af landi fjölgaði, en að embættismönnum í Reykjavík fækkaði á þingi, að minsta kosti að sama skapi.

Það væri ekki vanþörf á, að veita inn í þingið meira af hinu heilnæma andlega fjallalofti.

Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) talaði um, að óheppilegt væri að halda þingið á sumrin, vegna þess, að þá væri aðalbjargræðistíminn og að bændur ættu þess vegna ekki heimangengt. En eg álít að, að seinni partur vetrar sé einmitt sá tími, sem sé hættulegastur fyrir bændur að vera frá heimili sínu, því að þá ber stundum heyskort að og þá er sjálfs höndin hollust, þegar útvega skal fóður, ef til vill til láns. Ef fóður þarf við, er það mikill munur, hvort bóndinn sjálfur stjórnar eða vinnumaður hans.

Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) taldi hægt að ferðast í febrúar. Póstar og aðrir hraustir menn komast vanalega ferða sinna á veturna, en það gera ekki allir. Þingmannshæfileikar og líkamleg hreysti fer oft ekki saman, eins og allir ættu að vita.

Eg á ennfremur eftir að minnast á, hvernig þingmenn standa í sambandi við kjósendur sína á veturna. Ef þing er haldið í febrúar, þurfa þingmenn að halda þingmálafundi í janúar, en slíkt er oft og einatt ómögulegt vegna óveðurs og illrar færðar; þingmenn geta þannig ekki fengið að vita vilja kjósenda sinna; sem dæmi þess vil eg nefna að ýmsir þingmenn gátu alls ekki haldið þingmálafundi í vetur, sumir gátu ekki komist á þingmálafund, sem höfðu boðað hann.

Það ætti því að vera augljóst, að þingtíminn verður að vera á þeim tíma árs, að þingmenn geti skömmu fyrir þing sett sig í sem bezt samband við kjósendur sína. Eg er samþykkur því, að þingtíminn sé settur t. d. 17. júní eða 1. júlí, eins og áður var.