17.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

84. mál, færsla þingtímans

Sigurður Gunnarsson. Eg er samþykkur háttv. 1. þm. G.-K. (B. Kr.) um að það þurfi að setja nefnd í máli þessu. Enda þótt eg viðurkenni að ýmsar ástæður hafi verið fyrir því, að þingtíminn var fluttur, þá verð eg að halda því fram, að hinn núverandi þingtími er á mjög óhentugum tíma, þar eð vetrarferðir hér eru mjög erfiðar, hafís, snjór o. fl. getur oft tept ferðir þingmanna og auk þess verður ferðakostnaður mikill. Að því er sveitabúskapinn snertir, er það enn nauðsynlegra fyrir bóndann að vera heima á veturna og vorin en að sumrinu. Sumarverkin eru að vísu áríðandi fyrir bóndann, en tiltölulega einföld, en aftur á móti er afaráríðandi, að bóndinn sjálfur hugsi vel um bú sitt á veturna, með því að þá er oft hætt við að mikinn vanda beri að höndum, er engum sé hent úr að ráða, sem honum. Hér við bætist einnig, að eg hefi heyrt kennara í Reykjavík segja, að þessi vetrarþing dragi nemendur á skólunum hér frá náminu. Eg hefi ennfremur heyrt, að það þætti vel til fallið að, þá er háskólinn fyrst kemst á, yrði hann haldinn hér í þinghúsinu. Þetta er ekki lítilvæg ástæða fyrir flutningi þingtímans, því það hefir mjög mikinn sparnað í för með sér. Eg fyrir mitt leyti vil helzt hafa þingtímann frá miðjum júní og fram eftir sumrinu og þar næst frá miðjum nóvember og fram eftir vetrinum. Ef ákveðið verður að láta þingið koma saman í júní, legg eg það til, að það verði þ. 17. júní. Stéttir landsins stæðu með þessu móti betur að vígi en áður, enda þótt ekki sé hægt að sigla fyrir öll sker. Að því er bændurna snertir gætu þeir, að eg hygg, fult svo vel unað þessu, enda ekki svo mikið af þeim á þingi, að vel mætti tala þeirra þar fara vaxandi. Að svo mæltu held eg fast við tillögu mína um að nefnd verði sett í málið.