16.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1448 í B-deild Alþingistíðinda. (1834)

84. mál, færsla þingtímans

Sigurður Sigurðsson:

Háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) gat þess við 1. umr. þessa máls, að það væri ekki nýtt, að það kæmi til orða innan meiri hlutans á þingi, að færa þingtímann. Af því að orðum þessum var beint til mín, en mér gafst ekki tækifæri til að svara því við 1. umræðu málsins, þá verð eg að gera það nú. Það er rétt, að færsla þingtímans kom til orða innan flokksins á síðasta þingi, en það var af alt öðrum ástæðum en þeim, sem nú eru færðar fram með færslunni. Þá var ástæðan sú, að reyna að losna við konungkjörnu þingmennina, því að kjörtími þeirra var útrunninn seinast í apríl. Þessi ástæða er nú úr sögunni og á því ekkert skylt við málið, eins og það er flutt að þessu sinni. Það er aðallega tvent, sem eg hefi á móti færslu þingtímans. Í fyrsta lagi er óhagur að færa þingið til sumarsins vegna þess, að veturinn er mikið hentugri starfstími fyrir þau störf, sem þingið á að leysa af hendi, sem eru aðallega eða eingöngu skrifstofustörf. Að sumrinu hvarflar hugurinn fremur frá skjalahrúgunni út í sumarnáttúruna og sólarljósið. Og eg hefi svo margoft heyrt menn kvarta yfir, hve leiðinlegt það væri að sitja inni sólbjartan sumardaginn yfir þingstörfum, í staðinn fyrir að vera úti við heyannir og njóta sveitasælunnar í ríkulegum mæli.

Vetrartíminn er því miklu hentugri en sumarið til þeirra starfa, sem hér er um að ræða. Hin ástæðan, sem eg hefi á móti færslu þingtímans, er sú, að bændur eiga miklu erfiðara með að sækja þingið, ef það er haldið að sumrinu. Því hefir að vísu verið mótmælt, en ekki með réttu. Og skal eg til sönnunar því geta þess, að á síðasta kjörtímabili sátu 4—5 bændur á þingi, en nú eru þeir 9. Ef þingtímanum yrði ekki breytt, þykist eg mega fullyrða, að bændunum á þingi mundi fjölga frá því, sem nú er, og það að miklum mun. Þessi breyting, sem hér er farið fram á, mundi því verða til þess, að gera embættismönnum og öðrum lærðum mönnum í Reykjavík hægara að komast á þing en ella. Sumartíminn er sá tími, sem þeir eiga hægast með að sitja á þingi, og mundu þeir því nota sér það, og kappkosta að ná þingsetu og ráða sem mestu á þinginu. Reynslan við síðustu kosningar sýnir bezt, hvernig Reykvíkingar kepptu að því að komast á þing. Og þó eg meti mikils lærðu mennina, þá tel eg illa farið, ef þeim fjölgar mikið fram úr því sem nú er.

En hvað er svo unnið við, að hafa marga slíka menn á löggjafarþingi voru. Að undanförnu hafa þeir verið alt of margir á þingi og ráðið helzt til miklu þar.

Eg þykist mega fullyrða, að ólag það, er nú á sér stað í stjórnmálum, sé mikið því að kenna, hve margir embættismenn og aðrir lærðir menn í Reykjavík hafa tranað sér fram til þings og eiga sæti á því. Það er einmitt valdafíkn, launagræðgi og metorðagirnd þessara manna, sem hefir steypt stjórnmálum vorum í það spillingardjúp, sem þau eru nú í. Það er vafalaust rétt, að allar stéttir landsins eigi sæti á þingi; en það á að vera eftir réttu hlutfalli. Hvaða stétt er fjölmennust? Er það ekki bænda- og verkmannastéttin? Eg veit að engum muni blandast hugur um að svo sé. Ef nú þingbekkirnir væru skipaðir eftir réttu hlutfalli, hygg eg, að þeir embættismenn, kennarar og aðrir lærðir menn, er þar ættu sæti, væru ekki margir. Eg skal einnig geta þess, að mér finst harla undarlegt, að frumv. þetta skuli vera komið fram, þar sem kjósendur víðsvegar út um land hafa ekki látið í ljósi neina ósk um það. Það er að eins eitt kjördæmi, er hefir æskt þess. Frumv. getur því ekki verið komið fram, samkvæmt ósk landsmanna, heldur til þess að réttlæta þetta flan um færslu þingtímans, vegna konungkjörnu þingmannanna.

Í nefndarálitinu er lagt til, að þingið sé haldið á sumrin og er meðal annars sú ástæða færð fyrir því, að 1000 ára reynsla sé þung á metunum. Það er að vísu rétt, að 1000 ára reynsla er þung á metunum, en eg vil þó benda á það, að í fornöld og lengi fram eftir tímum var alls enginn kostur á að halda þingið á öðrum tíma árs en að sumrinu. Ástæðan fyrir því var sú, að bæði vantaði viðunanlegt hús á Þingvöllum, er rúmaði allan þingheim, og í öðru lagi voru samgöngutækin þá svo ófullkomin, að enginn kostur var að ferðast til Þingvalla öðruvísi en landveg.

Ef þingið yrði flutt á Þingvöll, álít eg rétt að breyta þingtímanum þannig, að þingið yrði haldið á sumrin. En það hefir engin uppástunga komið fram um það.

Ein af ástæðum þeim, er færð hefir verið fyrir flutningi þingtímans, er sú, að nota eigi þinghúsið til háskólahalds. En þó að háskólinn sé falleg hugsjón, hygg eg, að það sé varla tímabært, að setja hann á stofn nú. Hann mundi auka útgjöld landssjóðs árlega um 15—20 þús. kr. Eg hygg, að alþýðan, sem á að borga brúsann, mundi segja, að þetta hefði mátt bíða fyrst um sinn. Það er alkunnugt, að fjárhagur landsins er í ólagi og að menn eru í vandræðum með að kippa honum í lag. En stofnun háskólans er ekki sá vegur, sem leiðir til þess að bæta fjárhaginn, háskóla sem við höfum getað verið án í 1000 ár? Ef háskólinn er aðalástæðan fyrir breytingu á þingtímanum hjá þeim mönnum, sem ætla sér að hefjast upp úr skjalahrúgum og verða prófessorar og docentar, þá met eg hana ekki mikils. Eg álít ekki ráðlegt, að ráðast í að setja háskóla á stofn nú. En ef það yrði gert og þótt hann yrði haldinn í þinghúsinu, hygg eg, að ekki mundi lengi við svo búið standa. Eg þekki svo vel embættismennina, að eg veit, að þeir mundu ekki verða lengi ánægðir með þinghúsið sem háskóla, en mundu heimta nýtt hús. En slíkt hefir mikinn kostnað í för með sér.

Eg skal ekki gera breytingartillögu mína, um að þingið komi saman 15. nóvember, að kappsmáli. En ef þingtíminn verður færður á annað borð, álít eg heppilegast, að hann verði settur 15. nóvember. Sumarið er og verður óhentugur þingtími vegna þess, að það er aðalbjargræðistími landsmanna.

Eg skal svo ekki fara frekara út í þetta mál nú, en vil að eins taka það fram, að eg mun greiða atkvæði með minni tillögu, en á móti öllum hinum tillögunum.