03.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (1871)

158. mál, eftirlaunaafnám

Jón Jónsson (1. þm. S.-Múl.):

Eg mun greiða atkv. móti þessari tillögu Það er kynlegt, að þegar sú stefna er alstaðar að ryðja sér til rúms, að tryggja sem flestum eftirlaun, þá er hér verið að gera tilraunir til þess að svifta embættismenn eftirlaunum.

Aðalástæðan, sem menn bera fram gegn eftirlaununum er sú, að almenningur sé mjög óánægður með þau. Þetta mun að vísu vera rétt, en þessi óánægja stafar frá þeim tíma fyrir 20—30 árum síðan, er það var uppi á teningnum í hinni pólitísku baráttu, að æsa menn ekki eingöngu upp á móti eftirlaunum, heldur á móti embættisstéttinni yfir höfuð, — þá var mikið talað um »hálaunadyngjur«, »landsómaga« o. s. frv. Af þessum hugsunarhætti eru ennþá til nokkrar leifar; en mér virðist löggjafarvaldið ekki ætti að taka í sama streng; það er þvert á móti skylda þess að leiðbeina almenningsálitinu. Eg vil ennfremur benda á, að það er hinn mesti miskilningur, að þjóðinni yrði nokkur sparnaður að þessu; því að ef eftirlaun yrðu afnumin, þá yrði samstundis að hækka laun embættismanna. Almenningur má meira segja þakka fyrir, meðan svo er sem nú og embættismenn ekki rísa upp og heimta meiri laun. Eg tel því mjög óráðlegt að greiða atkvæði með þessari tillögu.