03.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1486 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

158. mál, eftirlaunaafnám

Jón Jónsson (1. þm. N.-Múl.):

Mig furðar á, að nokkur maður skuli verða til þess, að halda uppi vörnum fyrir eftirlaununum, þar sem það er almennur þjóðarvilji að afnema þau og vér getum ekki spornað móti því, þótt vér viljum. Það verður að afnema þau, en tryggja jafnframt, að embættismenn fari ekki á vonarvöl. Mér er kunnugt um það, að embættismenn sækjast ekki svo mjög eftir eftirlaunum, að minsta kosti ganga ekki síður út þau embætti, sem eftirlaunalaus eru. Að vera að »citera« í það, eins og háttv. þm. Vestm. (J. M.) að þetta sé á móti stefnu undanfarandi þinga, er þýðingarlaust. Vér eigum ekki að binda oss við það. Vér eigum að athuga sem bezt, hvers þjóðin óskar. Skoðun þjóðarinnar er sú, að embættismenn geti bjargast af án eftirlauna, eins og aðrir. Vér höfum ellistyrktarsjóð og fæ eg ekki annað séð, en að embættismenn geti þegið styrk úr honum eins og aðrir. Nú er orðinn svo mikill jafnaðaráhugi hér í landi, að menn sætta sig ekki við, að embættismenn hafi nokkur sérréttindi fram yfir aðra menn í þessu efni. Annað mál er það, að eg get fallist á það, að þeir hafi sérstakan eftirlaunasjóð, sem þeir legðu í.

Háttv. 1. þm. S.-Mú1. (J. J.) sagði, að embættismenn yrðu harðara úti en vinnuhjú. Þetta er undarlegt að heyra. Vér vitum, að margir embættismenn, t d. læknar, hafa mikil laun og miklar tekjur. Umkvartanir hafa komið fram um það, hve taxtinn sé hár, og er það ekki að ófyrirsynju. Auðvitað hafa læknar mikið að starfa, en því fremur er hægt að ætlast til, að menn sjái fyrir sér sjálfir á elliárunum, sem menn hafa meiri laun og tekjur, og á það ber að líta, þegar verið er að tala um eftir laun. Embættismönnum er alveg jafnskylt sem öðrum, að fara skynsamlega með efni sín og sólunda þeim ekki í óþarfa. Mér finst laun embættismanna ekki svo lág, að þeir megi ekki við hlíta, þótt þeir hafi ekki eftirlaunarétt, og eg er ekki samþykkur niðurlagi tillögunnar að hækka laun þeirra. Til þess að fá því breytt, get eg fallist á tillögu háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) um að taka málið út af dagskrá, þótt ekki sé af sömu ástæðu sem hann.